26. ágú. 2013

Fréttir úr leikskólum

Á leikskólum í Garðabæ eru bæði starfsfólk og börn komin til starfa endurnærð eftir gott sumarfrí. Hópi sumarstarfsfólks er þakkað kærlega fyrir samveruna í sumar.
  • Séð yfir Garðabæ

Á leikskólum í Garðabæ eru bæði starfsfólk og börn komin til starfa endurnærð eftir gott sumarfrí. Hópi sumarstarfsfólks er þakkað kærlega fyrir samveruna í sumar. 

Aðlögun nýrra barna

Um 200 börn hefja leikskóladvöl nú í haust en alls eru tæplega 1.000 börn á leikskólum í Garðabæ. Um 230 starfsmenn starfa á leikskólunum, þar af er rúmlega helmingur með leikskólakennaramenntun eða aðra uppeldismenntun.

Foreldrar nýrra barna taka fullan þátt í starfi skólans meðan á aðlögun stendur, taka þátt í borðhaldi og leikjum og eru til staðar fyrir barnið. Með því öðlast foreldrar öryggi um það sem á sér stað í skólanum á meðan börnin finna öryggi í nýjum dvalarstað. 

Vinabæjaverkefni og heimspekikennsla

Í vetur takast leikskólarnir á við ýmis þróunarverkefni. Má þar helst nefna samstarfsverkefni vinabæja Garðabæjar á Norðurlöndunum um notkun iPad í leikskólastarfi. Nefnist verkefnið iLek og felst í því að leikskólarnir deila með sér söngvum, sögum, matarhefð og öðrum hefðum í gegnum iPad. Einnig verður unnið að því að nálgast mat á námi barna á einstaklingsmiðaðan hátt með styrkleika og getu barnanna í fyrirrúmi. Sameiginleg þróunarverkefni leik- og grunnskóla verða nokkur og má þar helst nefna heimspekikennslu. 

Yngstu börnin

Sunnuhvoll tekst á við það verkefni að mæta þörfum yngri barnanna. Lögð verður áhersla á hreyfingu, næringu og samskipti svo eitthvað sé nefnt. Leikskólinn hefur fengið úthlutaðan styrk frá Landlæknisembættinu til verkefnisins.

Starfsfólk og börn hlakka til vetrarins og bjóða nýja nemendur og foreldra þeirra hjartanlega velkomna í leikskólana.