9. okt. 2014

Útikennsla við Vifilsstaðavatn

Útikennsla við Vifilsstaðavatn
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendur í 6. bekk Sjálandsskóla, Flataskóla og Hofsstaðaskóla fengu útikennslu við Vífilsstaðavatn og Vífilsstaðalæk dagana 19. til 21. september sl. þar sem þeir lærðu um lífrikið í og umhverfis vatnið og lækinn. Kennslan við vatnið er liður í náttúrufræðikennslu 11 ára nemenda. Umhverfisnefnd Garðabæjar hefur boðið upp á þessa vinsælu útikennslu síðan 1999.

 

Eitt lífríkasta vatn landsins

 

Vífilsstaðavatn er eitt lífríkasta vatn landsins miðað við fjölda dýra á fermetra. Í vatninu er að finna fjöldann allan af smádýrum, t.d. efjufló, rykmýslirfur, vatnabobba, vorflugupúpur og blóðsugur. Svipað líf er að finna í læknum nema þar eru bitmýslirfur í stað rykmýslirfa. Í vatninu eru einnig fiskar og eru það urriðar, bleikjur, álar, og hornsíli. Það hefur  komið fram í rannsóknum á lífríki vatnsins að í vatnasviði Vífilsstaðavatns mætast Evrópu- og Ameríkuálar en Ísland er eina landið sem vitað er til að það gerist. Hornsílin eru heimsfræg sökum kviðgaddaleysi þeirra og er Vífilsstaðavatn það eina hér á landi og eitt fárra vatna í heiminum sem er með slík síli.

 

Nýr fiskur við Ísland finnst í Hraunsholtslæk

 

Náttúran kemur stöðugt á óvart því nýjasti meðlimur í íslensku fiski fánunni fannst í Hraunholtslæk við ósinn og er það flatfiskur sem fer upp í ferskvatnslæki og ár rétt eins og sjóbirtingurinn.  Þessi fiskur heitir ósalúra og hefur hann verið að hasla sér völl við strendur landsins síðast liðin þrjú ár. Börn í grunnskólum Garðabæjar fá þannig  náttúruvísindin beint í æð og þar er eitthvað nýtt að upplifa á hverju ári.