9. ágú. 2013

Opið hús í Króki í sumar

Bærinn Krókur á Garðaholti er opinn alla á sunnudaga frá kl. 13-17 í sumar. Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923.
  • Séð yfir Garðabæ

Bærinn Krókur á Garðaholti er opinn alla á sunnudaga frá kl. 13-17 í sumar. Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923.  Í Króki eru varðveitt gömul húsgögn og munir sem voru í eigu hjónanna Þorbjargar Stefaníu Guðjónsdóttur og Vilmundar Gíslasonar. Þorbjörg flutti í Krók vorið 1934 og bjó í Króki til ársins 1985.  Afkomendur Þorbjargar og Vilmundar gáfu Garðabæ húsin í Króki með því skilyrði að bærinn yrði endurbyggður. 

Undanfarin ár hefur verið opið að sumri til í Króki fyrir almenning og skólahópar jafnt sem aðrir hópar hafa heimsótt bæinn yfir vetrartímann.  Í Króki er einnig herbergi sem hefur verið  nýtt sem vinnuaðstaða fyrir listamenn og undanfarið hefur Rúna K . Tetzschner myndlistamaður og rithöfundur verið þar með vinnuaðstöðu og haldið sýningu í hlöðunni við Krók.  Í lok ágúst verður auglýst eftir nýjum umsóknum listamanna fyrir næsta vetur.  

Tilvalið er að fara í göngutúr um Garðaholtið og koma við í Króki í leiðinni. Krókur er staðsettur ská á móti samkomuhúsinu og stutt frá Garðakirkju,  nánar tiltekið á gatnamótum Garðavegar og Garðaholtsvegar.  Bílastæði eru hjá samkomuhúsinu á Garðaholti.  Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir í heimsókn næstu sunnudaga í ágúst frá kl. 13-17.