Nýr leikskólastjóri á Lundabóli
Björg Helga Geirsdóttir leikskólakennari hefur verið ráðin í stöðu leikskólastjóra á Lundabóli.
Björg Helga Geirsdóttir leikskólakennari hefur verið ráðin í stöðu leikskólastjóra á Lundabóli.
Sex umsækjendur voru um stöðuna en fimm af þeim uppfylltu þau skilyrði sem sett voru. Björg Helga lauk leikskólakennaraprófi árið 2004 frá Háskólanum á Akureyri og útskrifaðist með diplómapróf í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands árið 2009.
Björg Helga hefur lengst af unnið á leikskólunum Vesturkoti og Arnarbergi í Hafnarfirði sem deildarstjóri, aðstoðarleikskólastjóri og sem leikskólastjóri í afleysingum. Björg Helga hefur tekið þátt í fjölmörgum þróunarverkefnum, þar á meðal um læsishvetjandi umhverfi í leikskóla og um uppeldisaðferðina PMT/SMT.