3. júl. 2013

Íslenski safnadagurinn í Hönnunarsafninu

Hönnunarsafn Íslands tekur þátt í íslenska safnadeginum sunnudaginn 7. júlí. Ókeypis aðgangur verður að safninu í tilefni dagsins og fjölbreytt dagskrá
  • Séð yfir Garðabæ

Hönnunarsafn Íslands tekur þátt í íslenska safnadeginum sunnudaginn 7. júlí. Ókeypis aðgangur verður að safninu í tilefni dagsins og fjölbreytt dagskrá. Opið frá kl. 12-17.

Leiðsögn og léttur fróðleikur

Fjölskylduleiðsögn verður um sumarsýningu safnsins, Óvænt kynni kl. 14.30. Þóra Sigurbjörnsdóttir, fulltrúi safneignar fylgir gestum um sýninguna og fléttar inn í leiðsögnina frásögnum af því starfi sem fer fram á bak við tjöldin í Hönnunarsafninu. Þóra mun einnig varpa ljósi á þá vinnu sem er í gangi við heimildaöflun fyrir íslenska hönnunarsögu.

Pallurinn - þekkir þú hlutina?

Pallurinn verður opnaður á íslenska safnadeginum en hugmyndin með honum er að sýna gripi sem vantar meiri upplýsingar um. Gripum verður skipt út reglulega á meðan á sýningartíma stendur. Einnig verður hægt að fylgjast með á heimasíðu safnsins og á facebook síðu safnins.

Þekking á íslenskri hönnunarsögu er enn að mótast og eitt stærsta verkefnið sem unnið er að í safninu í dag er að leita upplýsinga, safna og skrá skipulega þessa sögu eftir ýmsum leiðum. Í safneignina hafa ratað hlutir sem lítið er vitað um. Starfsfólk Hönnunarsafnsins vill því nota tækifærið samhliða sýningunni Óvænt kynni, og leita til gesta safnsins eftir upplýsingum.

Í tilkynningu frá Hönnunarsafninu segir: "Ef þú býrð yfir vitneskju varðandi hlutinn á Pallinum þætti okkur vænt um að þú deildir henni með okkur. Við biðjum þig um að setjast niður við Pallinn og skrá það sem þú veist um gripinn, á þar til gerð blöð. Upplýsingarnar geta verið allt frá því að vera nafn hönnuðar eða smiðs yfir í minningar um gripinn eða grip líkan þeim sem er á pallinum og tímabil."

Smástundarsafnið - hvernig virkar þetta?

Smástundarsafnið sækir Hönnunarsafn Íslands heim kl. 15-17 á íslenska safnadeginum.

Spurning dagsins er: Átt þú hlut sem þú hefur aldrei áttað þig á hvernig virkar eða hvað hann gerir? Ef svo er, er Smástundarsafnið í Hönnunarsafninu rétti vettvangurinn til að koma með hlutinn á. Þar getur þú rætt við aðra safngesti um þinn hlut og jafnframt hjálpað öðrum að finna út úr því hvernig þeirra hlutur virkar.

Þegar í safnið er komið segir þú frá hlutnum þínum og skráir niður sögu hans. Á meðan taka starfsmenn safnsins ljósmyndir af honum. Frásögnin og ljósmyndin verða síðan færðar inn á vef Smástundarsafnsins þar sem þær verða aðgengilegar öllum til lesturs og yndisauka. Að þessu loknu tekur þú gripinn aftur með þér heim þar sem hann heldur áfram að skapa minningar.

Hönnunarsafn Íslands er við Garðatorg 7 í Garðabæ,
www.honnunarsafn.is