20. jún. 2013

Listahópar að störfum

Skapandi sumarstarf í Garðabæ hóf göngu sína á ný í byrjun júní, fjórða árið í röð. Föstudaginn 21. júní ætlar myndlistarhópurinn að vinna ,,úti" frá 13-16. Tónlistarkrakkarnir sjá um að halda uppi stemmningunni,
  • Séð yfir Garðabæ

Skapandi sumarstarf í Garðabæ hóf göngu sína á ný í byrjun júní, fjórða árið í röð. Markmið þess er að auka fjölbreytni daglegs lífs Garðbæinga með listrænum uppákomum af ýmsu tagi, skreyta bæinn með listaverkum og veita sköpunarkrafti ungmenna bæjarins farveg. Skapandi sumarstarf af þessu tagi er nú starfrækt í mörgum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins að fyrirmynd starfsins í Hinu Húsi Reykjavíkurborgar.

Hóparnir í ár samanstanda af ungmennum á aldrinum 17-25 ára sem starfa í gegnum atvinnuátak Garðabæjar. Næstu tvo mánuði munu þau vinna að verkefnum byggðum á eigin hugmyndum og áhugamálum.    Ungmennin í ár starfa við: myndlist, veggjalist, tónlist, hljóðfærasmíðar, tónsmíðar, ljósmyndun, vöruhönnun, fatahönnun, ljóðagerð, handritaskrif, tískublogg, hugmyndavinnu varðandi bætta aðstöðu í bænum og kynningarefni um Barnasáttmálann fyrir börn bæjarins.  
 

Fjölbreytt starf í sumar

Hóparnir nýta sér aðstöðu bæjarins á ýmsum stöðum, en höfuðstöðvar þeirra eru í sýningarsal á Garðatorgi 7. Bæjarbúar eru hvattir til þess að kíkja við og fylgjast með þessum hæfileikaríku ungmennum.  Stefnt er að því að halda 2-3 sameiginlega viðburði í sumar, þar sem allir hópar sýna afrakstur sinn. Hópurinn í heild kemur að Jónsmessugleði sem verður haldin í samstarfi við Grósku, félag áhugamanna um myndlist í Garðabæ, þann 27.júní nk. Í lok sumars verður haldin uppskeruhátíð þar sem afrakstur hópanna í sumar verður sýndur.  Uppskeruhátíðin verður auglýst betur þegar nær dregur.

Útivinnudagur á Garðatorgi - föstudaginn 21. júní

Föstudaginn 21. júní ætlar myndlistarhópurinn að vinna ,,úti" frá 13-16. Þau verða staðsett á Garðatorgi, beint fyrir framan blómabúðina. Tónlistarkrakkarnir sjá um að halda uppi stemmningunni, bæði þar sem myndlistarhópurinn er að vinna og líka fyrir utan Víði. Allir eru velkomnir að fylgjast með á Garðatorginu.

Á fésbókarsíðu hópsins má finna myndir, myndbönd, fréttir og tilkynningar frá starfi sumarsins:
https://www.facebook.com/SkapandiSumarstarfGardabaer
http://210-blog.blogspot.com/