Ráðherra heimsækir Hofsstaðaskóla
Illugi Gunnarsson mennta- og menningamálaráðherra heimsótti Hofsstaðaskóla 29. maí sl. á fjórða starfsdegi sínum sem ráðherra, til að fagna góðu gengi skólans í Nýsköpunarkeppni grunnskóla. Með honum í för voru fjórir starfsmenn ráðuneytisins.
Hofsstaðaskóli fékk nýlega gullverðlaun í fimmta sinn fyrir fjölda innsendra hugmynda í Nýsköpunarkeppni grunnskóla. Að auki fengu margir nemendur skólans verðlaun fyrir hugmyndir sínar.
Í heimsókn sinni hitti ráðherra m.a. Sædísi Arndal smíða- og nýsköpunarkennara sem á fyrst og fremst heiðurinn að velgengni skólans í keppninni. Sædís útskýrði fyrir ráðherra hvernig staðið væri að kennslu í nýsköpun í skólanum. Hún lagði áherslu á að nemendur fengju hugmynd sem þeir þyrftu að útfæra m.t.t. hversu mikil þörf væri fyrir hana, hvort hún leysti ákveðin vandamál og hvernig best væri að koma hugmyndinni og vörunni í framleiðslu og á markað. Sædís sagði ráðherra frá því að á hverju ári veitti Marel nýsköpunarverðlaun.
Ráðherra kom við í 5. bekk þar sem nemendur voru að vinna verkefni í náttúrufræði. Verkefnið var spurningakeppni tveggja liða og var unnið á gagnvirka kennslutöflu. Ráðherra, sem ekki hafði áður séð gagnvirka kennslutöflu í notkun, var mjög hrifinn og talaði um hraðar tækniframfarir í kennslu og námi barna í grunnskóla.
Ráðherra gekk einnig um skólann og skoðaði m.a. lampa sem nemendur í 6. bekk gera í smíði, en þeir taka áralega þátt í lampasamkeppni. Kennari í hönnundardeild Iðnskólans í Hafnarfirði velur lampa, sem að hans mati skara fram úr og sigurvegarar fá vegleg verðlaun frá Marel.
Þrír nemendur fylgdu ráðherra um skólann tóku myndir og myndskeið á iPad og myndavél, auk þess sem þeir tóku viðtal við hann.
Fréttir um heimsóknina eru á vef Hofsstaðaskóla og á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.