20. sep. 2016

Nýr samgöngustígur yfir Arnarnesháls

Nýr samgöngustígur yfir Arnarnesháls var formlega opnaður í dag og um leið var afhjúpað merki sem sýnir að stígurinn sé hluti af rauðri lykilleið.
  • Séð yfir Garðabæ

Nýr samgöngustígur yfir Arnarnesháls var formlega opnaður í dag og um leið var afhjúpað merki sem sýnir að stígurinn sé hluti af rauðri lykilleið. Lykilleiðir eru samgöngustígar sem lögð er áhersla á að halda færum allt árið og tengja saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Stígurinn á Arnarneshálsi er fyrsti hluti lykilleiðanna sem er merktur sem slíkur. 

Nemendur úr 7. bekk í Sjálandsskóla komu hjólandi eftir stígnum til að taka þátt í athöfninni og einn úr þeirra hópi opnaði stíginn formlega með því að klippa á borða sem hafði verið strengdur yfir hann. Að því loknu afhjúpuðu Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri skilti sem merkja stíginn sem rauða lykilleið. 

Stígurinn yfir Arnarnesháls, sem var samstarfsverkefni Garðabæjar og Vegagerðarinnar, er hluti af rauðu lykilleiðinni sem nær allt frá miðbæ Hafnarfjarðar að Borgartúni í Reykjavík. Alls verða leiðirnar fimm, gul, rauð, græn, blá og fjólublá. Lykilleiðirnar njóta forgangs í snjómokstri og hálkueyðingu þegar þess er þörf. Eins og sést á myndinni hér fyrir neðan liggur fjólubláa lykilleiðin líka í gegnum Garðabæ en hún nær frá Hafnarfirði að Mjódd í Reykjavík.

Litamerking lykilleiða er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og var það unnið í samráði við Vegagerðina.

Opnun stígsins er hluti af dagskrá samgönguviku 16.-22. september.

Kort sýnir legu lykilleiðanna fimm, smellið á myndina til að fá upp stærri mynd í pdf-skjali.

Mynd sem sýnir legu lykilleiðanna fimm

.