8. nóv. 2011

Gegn einelti í Garðabæ

Gegn einelti í Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ

Starfsmenn Flataskóla, Hofsstaðaskóla og Garðaskóla hafa hrundið af stað verkefninu "Gegn einelti í Garðabæ"  en markmið þess er að fyrirbyggja og bregðast við einelti í grunnskólum bæjarins. Nýlega var haldinn fyrsti umræðufundur verkefnisins á nýhöfnu skólaári þar sem rætt var um ólík birtingarform eineltis. Fundinn sátu allir starfsmenn skólanna alls yfir 200 manns. Verkefnið hófst sl. vor og þegar hefur verið mótuð sameiginleg stefna skólanna undir yfirskriftinni "Í grunnskólum Garðabæjar er hvorki einelti né annað ofbeldi liðið".  Skilaboðin eru því mjög skýr og stefnt er að því að starfsmenn skólanna, nemendur og forráðamenn þeirra taki höndum saman um að fylgja þeim eftir. Það á að gera með því að:

  • Allir þekki skilgreiningu á einelti
  • komið verði í veg fyrir einelti og annað ofbeldi með markvissum forvörnum
  • brugðist verði við einelti eins fljótt og auðið er
  • allir þekki feril eineltismála og meðferð þeirra
  • allir séu vakandi fyrir líðan og velferð nemenda
  • fylgst verði með og kannað reglulega umfang og eðli eineltis í skólunum.

Á myndinni kynnir Ragnar Ólafsson frá Námsmatsstofnun könnun sem gerð var í vor meðal nemenda í 4.-10. bekk. Lögð er áhersla á að árangur verkefnisins verði metinn með könnunum sem lagðar verða fyrir nemendur, kennara og jafnvel forráðamenn.