22. maí 2013

Fjölmennt á málþingi um Búrfellshraun

Fjölmennt málþing um Búrfellshraun var haldið í húsi Náttúrufræðistofnunar Íslands á Urriðaholti 21. maí sl. Málþingið var tileinkað minningu Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings.
  • Séð yfir Garðabæ

Fjölmennt málþing um Búrfellshraun var haldið í húsi Náttúrufræðistofnunar Íslands á Urriðaholti 21. maí sl. Málþingið var tileinkað minningu Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings.

Eitt síðasta rannsóknarverkefni Guðmundar var aldursgreining og kortlagning Búrfellshrauns sem er samheiti á hraununum í Garðabæ og Hafnarfirði er runnu frá Búrfellsgíg til sjávar. Guðmundur Kjartansson lést árið 1972.

Erindi málþingsins voru fjölbreytt en m.a. var rætt um jarðfræði Búrfellshrauna og eldstöðva Krísuvíkur. Fjallað var um örnefnin í hraununum, skipulagsmál og friðlýsingar hraunanna. Dóttir Guðmundar Kjartanssonar sagði frá föður sínum og ævistarfi hans en auk fræðistarfa málaði Guðmundur fjölda mynda af landslagi og jarðmyndunum með vatnslitum og kenndi við Flensborgarskóla í Hafnarfirði.

Guðmundur lærði að hjóla á námsárum í Kaupmannahöfn. Á meðan hann bjó þar leitaði hugurinn til náms í Napólí á Ítalíu og gerði hann sér lítið fyrir og hjólaði frá Kaupmannahöfn til Ítalíu og til baka þótt ekki tækist vegna fjárskorts að setjast þar til náms. Guðmundur hjólaði einnig um hálendi Íslands á rannsóknarferðum sínum yfir sumarið.

Að málþingi loknu var gestum þess boðið að Bala á Garðaholti, nærri mörkum Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Þar ákváðu Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar að vinna saman að friðun hraunanna og fræðslu um þau m.a. með uppsetningu fræðsluskiltis um Búrfellshaun á Bala.

Gestir þáðu kaffi og kleinur úti á Bala eftir vel heppnað málþing sem var samstarfsverkefni Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Náttúrufræðistofnunar og Haunavina.