17. maí 2013

Regnbogafáninn á Garðatorgi

Regnbogafáninn var dregin að hún á Garðatorgi í morgun en með því tekur Garðabær þátt í alþjóðlegum baráttudegi gegn homo-, bi- og transfóbíu
  • Séð yfir Garðabæ

Regnbogafáninn var dregin að hún á Garðatorgi í morgun en með því tekur Garðabær þátt í alþjóðlegum baráttudegi gegn homo-, bi- og transfóbíu (fælni gagnvart samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transfólki).

Baráttudagurinn er haldinn 17. maí ár hvert en þann dag árið 1990 var samkynhneigð tekin út af sjúkdómalista Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar

Samtökin '78 fagna í ár 35 ára afmæli sínu og því var ákveðið að halda upp á daginn á glæsilegan hátt. M.a. hvetja Samtökin alla til að sýna málefnum hinsegin fólks um heim allan stuðning með því að flagga regnbogafánanum í dag.

Í erindi Samtakanna '78 til bæjarráðs kemur fram að margar þeirra lagabóta sem barist hefur verið fyrir undanfarin 35 ár hafa nú komist til framkvæmda og lagaleg staða hinsegin fólks (samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks) því nokkuð góð í íslensku samfélagi. Enn megi þó gera betur því þrátt fyrir lagalegt jafnrétti séu fordómar enn til staðar.

"Sýnileiki, umræða og fræðsla um málefni hinsegin fólks eru því afar mikilvægir þættir í samfélagi okkar og mjög ánægjulegt hve margir nýta sér Samtökin '78 sem félag sérþekkingar og reynslu á því sviði. Víða erlendis er staðan enn verri og því mikilvægt fyrir samfélag okkar að sýna samstöðu og gott fordæmi hvað varðar málefni hinsegin fólks og mannréttindi almennt," segir m.a. í bréfinu. 
 
Í tilefni afmælisársins standa Samtökin '78 fyrir fjölmörgum viðburðum þar sem kapp er lagt á að auka sýnileika félagsins. Beiðni Samtakanna um að regnbogafánanum sé flaggað í dag er einn liður í því.

 

Regnbogafáninn á Garðatorgi 17. maí 2013