10. maí 2013

Vorhreinsun lóða hafin

Vorhreinsun lóða stendur nú yfir og gengur mjög vel að sögn forstöðumanns þjónustumiðstöðvar.
  • Séð yfir Garðabæ

Vorhreinsun lóða stendur nú yfir og gengur mjög vel að sögn forstöðumanns þjónustumiðstöðvar. 

Álftnesingar voru fyrstir í röðinni en starfsmenn þjónustumiðstöðvar hafa farið þar um í dag og hirt upp garðúrgang sem settur hefur verið út fyrir lóðamörk. "Við erum búnir að taka upp mikið af greinum hér á Álftanesinu. Það er greinilegt að fólk hefur verið duglegt að klippa og snyrta hjá sér garðana. Ég hvet aðra Garðbæinga til að gera það sama og nýta þessa þjónustu okkar við að hirða upp úrganginn," segir Sigurður Hafliðason, forstöðumaður.

Hann segir rétt að taka fram að úrgangurinn sé hirtur í tvennu lagi, annars vegar sé farin ferð til að hirða upp pokana og hins vegar til að hirða greinarnar. Fólk þurfi því ekki að undrast þótt greinarnar séu skildar eftir í fyrstu umferð.