10. maí 2013

Ljúfir tónar á þriðjudagstónleikum

Tónleikaröðin Þriðjudagsklassík í Garðabæ hélt áfram göngu sína þriðjudagskvöldið 7. maí sl. í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Þá steig á svið Sigurgeir Agnarsson sellóleikari og Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari.
  • Séð yfir Garðabæ

Tónleikaröðin Þriðjudagsklassík í Garðabæ hélt áfram göngu sína þriðjudagskvöldið 7. maí sl. í sal Tónlistarskóla Garðabæjar.  Þá steig á svið Sigurgeir Agnarsson sellóleikari og Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari.  Þetta voru aðrir tónleikar nýrri tónleikaröð er nefnist sem fyrr segir Þriðjudagsklassík í Garðabæ.  Ingibjörg Guðjónsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar og það er menningar- og safnanefnd Garðabæjar sem stendur að henni.

Góð mæting var á tónleikanna og efnisskráin var fjölbreytt þetta kvöld og á undurfögrum klassískum nótum. Sigurgeir og Nína Margrét spiluðu verk eftir Schumann, Mendelssohn og Massenet, m.a. hið þekkta sellóverk Ljóð án orða og Hugleiðingu Thais. Í tveimur verkum bættist Ingibjörg Guðjónsdóttir sópransöngkona í hópinn og flutti með þeim sjaldheyrða perlu, Vókalísu eftir bandaríska tónskáldið André Previn og Elegie eftir Massenet.

Þriðju og síðustu tónleikarnir í tónleikaröðinni á þessari önn verða haldnir þriðjudaginn 4. júní kl. 20 í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Þá stígur á svið Ingibjörg Guðjónsdóttir sópran og Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari.  Saman flytja þær íslensk og erlend sönglög og óperuaríur frá námsárum í Tónlistarskóla Garðabæjar hjá Snæbjörgu Snæbjarnardóttur söngkennara.