15. sep. 2016

Samgönguvika 16.-22. september

Samgönguvika er haldin 16. - 22. september ár hvert. Markmiðið er að hvetja fólk til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga. Samgönguvika er evrópskt átak um bættar samgöngur í borgum og bæjum
  • Séð yfir Garðabæ

Samgönguvika er evrópskt átak um bættar samgöngur í borgum og bæjum. Markmið vikunnar er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja það til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga.

Samgönguvika heldur úti Facebook síðu þar sem viðburðir vikunnar eru kynntir. 

Föstudagur 16. september

Hjólum til framtíðar:

Ráðstefna haldin af Hjólafærni í samvinnu við öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Ráðstefnan verður haldin í Hlégarði í Mosfellsbæ kl. 10 - 16.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðu Landsamtaka hjólreiðamanna,www.lhm.is  og þar er hægt að skrá sig til þátttöku.

Fyrir ráðstefnuna verður boðið upp á hjólreiðaferð frá Elliðaárvogi (við hjólabrýr) til Mosfellsbæjar þar sem m.a. verður hjólað á nýja samgöngustígnum undir Úlfarsfelli. Lagt verður af stað kl. 9 frá Elliðaánum og kl. 9:20 frá bílastæðinu við Bauhaus fyrir þá sem vilja slást í hópinn.

Dagskrá ráðstefnunnar

Þriðjudagur 20. september

Nýr samgöngustígur yfir Arnarnesháls verður formlega opnaður við enda Hegraness við Arnarneslæk þriðjudaginn 20. september kl. 12.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar afhjúpar við það tilefni skilti sem merkja stíginn sem rauða lykilleið á höfuðborgarsvæðinu. Lykilleiðir eru samgöngustígar sem lögð er áhersla á að halda færum allt árið og tengja saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Stígurinn yfir Arnarnesháls, sem var samstarfsverkefni Garðabæjar og Vegagerðarinnar, er hluti af rauðu lykilleiðinni sem nær allt frá miðbæ Hafnarfjarðar að Borgartúni í Reykjavík. Sá hluti rauðu lykilleiðarinnar sem er í Garðabæ, er fyrsta lykilleiðin sem er merkt á höfuðborgarsvæðinu en alls verða leiðirnar fimm, gul, rauð, græn, blá og fjólublá.

Litamerking lykilleiða er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og var unnið í samráði við Vegagerðina.

Fimmtudagurinn 22. september

Bíllausi dagurinn - frítt í strætó á öllu höfuðborgarsvæðinu.