26. apr. 2013

Jazzinn dunar í Garðabæ

Jazzhátíð Garðabæjar hófst formlega með tónleikum í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, fimmtudagskvöldið 25. apríl. Þar steig á svið góður gestur frá Færeyjum, bassaleikarinn Edvard Nyholm Debess, ásamt valinkunnum íslenskum hljóðfæraleikurum
  • Séð yfir Garðabæ

Jazzhátíð Garðabæjar hófst formlega með tónleikum í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, fimmtudagskvöldið 25. apríl.  Þar steig á svið góður gestur frá Færeyjum, bassaleikarinn Edvard Nyholm Debess, ásamt valinkunnum íslenskum hljóðfæraleikurum þeim Sigurði Flosasyni, Agnari Má Magnússyni, Guðmundi Péturssyni og Matthíasi Hemstock.  Gestir kunnu vel að meta ljúfa jazztóna kvöldsins sem voru frumfluttir í Garðabæ.  Jazzhátíðin er nú haldin í áttunda sinn og stendur til sunnudagsins 28. apríl.  Hátíðin er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar og listrænn stjórnandi frá upphafi hefur verið Sigurður Flosason tónlistarmaður og fyrrum bæjarlistamaður Garðabæjar.  Aðalstyrktaraðili hátíðarinnar er Íslandsbanki í Garðabæ.  Aðgangur að öllum tónleikum er ókeypis.

Dagskrá hátíðarinnar er aðgengileg hér.

Stofudjass í kvöld í Urðarbrunni

Stærstu tónleikar hátíðarinnar verða að þessu sinni haldnir í kvöld föstudagskvöldið 26. apríl í Urðarbrunni, hátíðarsal Fjölbrautaskólans í Garðabæ.  Þar verður boðið upp á ,,Stofudjass í stórum sal“ með Flosason/Lauritsen kvartettinum.  Kjeld Lauritsen er fremsti Hammond orgelleikari Dana og nýtur hann mikilla vinsælda í heimalandi sínu. Lauritsen og Sigurður Flosason reka saman hljómsveit í Danmörku en hér kemur íslensk útgáfa hljómsveitarinnar fram og kynnir nýútkominn geisladisk þeirra sem ber heitið „Nightfall“, en hann hefur að geyma jazzstandarda og hefur fengið fína dóma í Danmörku.  Sérstakur gestur þetta kvöld verður söngkonan Ragnheiður Gröndal.  Hér er á ferðinni aðgengileg jazztónlist við allra hæfi.  Lionsmenn selja léttar veitingar við þetta tækifæri til styrktar félaginu.

Tvennir tónleikar á laugardegi

Á laugardeginum þann 27. apríl verður boðið upp á tvenna tónleika að degi til kl. 14 í Jónshúsi, við Strikið,  og kl. 17 í Haukshúsi á Álftanesi.   Í Jónshúsi verður boðið upp á sveiflu á Sjálandi eða swing tónleika fyrir eldri borgara.  Þar verður sérhönnuð dagskrá með valinkunnum lögum swingtímans fluttum af Flosason/ Lauritsen kvartettinum.  Síðdegis á laugardeginum verður boðið upp á tónleika kl. 17 í Haukshúsi á Álftanesi en þar stígur sambýlisfólkið Ragnheiður Gröndal söngkona og Guðmundur Pétursson á svið og flytja jazzperlur í dúóformi eins og þeim einkum er lagið. Félagið Dægradvöl verður með létta veitingasölu í Haukshúsi.

Ungmennatónleikar á sunnudegi

Hátíðinni lýkur á sunnudagskvöldinu 28. apríl með flottum ungmennatónleikum í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju.  Þar sýnir unga kynslóðin hvað í henni býr og fram koma Stórsveit Tónlistarskóla Garðabæjar, kvartett Önnu Grétu, hljómsveitin Fimmund og hljómsveit Tónlistarskóla Garðabæjar.   Kvartett Önnu Grétu tók forskot á jazzhátíðina og lék nokkur valin lög fyrir gesti og gangandi á Garðatorgi og við Litlatún fyrr í vikunni til að kynna jazzhátíðina.