19. apr. 2013

Jazzhátíð Garðabæjar

Jazzhátíð Garðabæjar verður haldin í áttunda sinn fimmtudaginn 25. apríl til sunnudagsins 28. apríl nk. Á jazzhátíð er leitast við að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá með framúrskarandi jazztónlistarmönnum
  • Séð yfir Garðabæ

Jazzhátíð Garðabæjar verður haldin í áttunda sinn fimmtudaginn 25. apríl til sunnudagsins 28. apríl nk.  Hátíðin er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar og listrænn stjórnandi frá upphafi hefur verið Sigurður Flosason tónlistarmaður og fyrrum bæjarlistamaður Garðabæjar.  Aðalstyrktaraðili hátíðarinnar er Íslandsbanki í Garðabæ.  Jazzhátíðin hefur ávallt leitast við að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá við allra hæfi með framúrskarandi jazztónlistarmönnum sem margir hverjir eiga rætur sínar að rekja til Garðabæjar.   Að þessu sinni koma  tveir góðir erlendir gestir í heimsókn; kontrabassaleikarinn Edvard Nyholm Debess frá Færeyjum og Hammond-orgelleikarinn Kjeld Lauritsen frá Danmörku og leika með Íslendingum.

Dagskrá hátíðarinnar er aðgengileg hér.

Frábærir jazztónlistarmenn frá Færeyjum og Danmörku

Fyrstu tónleikarnir verða haldnir fimmtudagskvöldið 25. apríl í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju.  Þá stígur á svið færeyski bassaleikarinn Edvard Nyholm Debess.  Færeyingurinn Edvard hefur samið heila efnisskrá nýrrar og spennandi tónlistar fyrir íslenska jazztónlistarmenn sem flestir tengjast Garðabæ. Með honum leika Guðmundur Pétursson á gítar, Sigurður Flosason á saxófón,  Agnar Már Magnússon á píanó og Matthías Hemstock á trommur. Heimsfrumflutningur í Garðabæ!

Stærstu tónleikar hátíðarinnar verða að þessu sinni haldnir á föstudagskvöldinu 26. apríl í Urðarbrunni, hátíðarsal Fjölbrautaskólans í Garðabæ.  Þar verður boðið upp á ,,Stofudjass í stórum sal“ með Flosason/Lauritsen kvartettinum.  Kjeld Lauritsen er fremsti Hammond orgelleikari Dana og nýtur hann mikilla vinsælda í heimalandi sínu. Lauritsen og Sigurður Flosason reka saman hljómsveit í Danmörku en hér kemur íslensk útgáfa hljómsveitarinnar fram og kynnir nýútkominn geisladisk þeirra sem ber heitið „Nightfall“, en hann hefur að geyma jazzstandarda og hefur fengið fína dóma í Danmörku.  Sérstakur gestur þetta kvöld verður söngkonan Ragnheiður Gröndal.  Hér er á ferðinni aðgengileg jazztónlist við allra hæfi.

Tvennir tónleikar á laugardegi

Á laugardeginum þann 27. apríl verður boðið upp á tvenna tónleika að degi til kl. 14 í Jónshúsi, við Strikið,  og kl. 17 í Haukshúsi á Álftanesi.   Í Jónshúsi verður boðið upp á sveiflu á Sjálandi eða swing tónleika fyrir eldri borgara.  Þar verður sérhönnuð dagskrá með valinkunnum lögum swingtímans fluttum af Flosason/ Lauritsen kvartettinum.  Síðdegis á laugardeginum verður boðið upp á tónleika kl. 17 í Haukshúsi á Álftanesi en þar stígur sambýlisfólkið Ragnheiður Gröndal söngkona og Guðmundur Pétursson á svið og flytja jazzperlur í dúóformi eins og þeim einkum er lagið.

Ungmennatónleikar á sunnudegi

Hátíðinni lýkur á sunnudagskvöldinu 28. apríl með flottum ungmennatónleikum í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju.  Þar sýnir unga kynslóðin hvað í henni býr og fram koma Stórsveit Tónlistarskóla Garðabæjar, kvartett Önnu Grétu, hljómsveitin Fimmund og hljómsveit Tónlistarskóla Garðabæjar.   Auk þess má búast við ljúfum jazztónum í miðbæ Garðabæjar að degi til á Garðatorgi og víðar þar sem jazzhátíðin verður kynnt fyrir gesti og gangandi.

Ókeypis aðgangur

Aðgangur er ókeypis á alla tónleika jazzhátíðarinnar og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Hátíðin hefur vaxið og dafnað með árunum og íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa fjölmennt á hátíðina.