8. apr. 2013

Vor í lofti

Umhverfisstjóri skrifar pistil um vorverkin, hreinsunarátak, vorhreinsun lóða, veiðileyfi, hundabann við vötnin o.fl.
  • Séð yfir Garðabæ

Hreinsunarátak í nærumhverfi

 Árlegt átak um snyrtilegan bæ er hafið. Nágrannar, íbúasamtök, félagasamtök, íþróttafélög og skólar geta tekið þátt í hreinsunarátakinu, með því að taka að sér svæði til hreinsunar í nærumhverfi sínu. Hafið samband við umhverfisstjóra til að fá úthlutað svæði til ruslatínslu og umsókn um styrk að verki loknu. Hreinsunarátakið er dagana 9. – 23. apríl.

Vorhreinsun lóða

Garðaúrgangur er fjarlægður við lóðamörk dagana 10. – 17. maí. Garðeigendur eru hvattir til að nýta sér þessa þjónustu bæjarins sem er einungis þessa daga og er íbúum að kostnaðarlausu. Aðra tíma ársins er tekið við garðaúrgangi í móttökustöðvum Sorpu, sjá www.sorpa.is  Garðeigendur eru hvattir til að koma sér upp safnkössum fyrir garðaúrgang, það er hagkvæmt að losa þar garðaúrgang, gras og greinar og jafnframt er vistvænt að búa til sína eigin gróðurmold og sleppa akstri með garðaúrgangspoka í skottinu. Fræðslu um garðyrkjustörfin er að finna á vef Garðabæjar.

Athugið að garðaúrgangssvæði á bökkunum á Álftanesi hefur verið lokað. Garðaúrgangi er ekki safnað í hauga í bæjarlandinu.

Veiðileyfi í Vífilsstaðavatn

Veiðitímabilið í Vífilsstaðavatni hófst 1. apríl og stendur til 15. september. Veiðileyfi eru seld með Veiðikortinu sem fæst á bensínafgreiðslum, sá nánar á veidikortid.is . Dagsveiðileyfi eru seld í Þjónustuveri Garðabæjar á kr. 1.000.- Þeir sem hyggjast stunda veiði í Vífilsstaðavatni þurfa að stunda góða umgengni í friðlandinu og gæta að því að raska ekki fuglalífi um varptímann. Skiljið ekki eftir rusl á bökkum vatnsins s.s. nestisumbúðir né girnisbúta sem eru fuglum hættulegir. Notið löglegar beitur.

Hundabann við vötnin

Algjört bann er við umferð allra hunda um varptímann við vötnin. Tímabilið 15. apríl til 1. júlí eru hundar bannaðir í friðlandi Vífilsstaðavatns og við Urriðavatn. Með virðingu fyrir fuglalífinu stuðlum við að fjölbreytni í fuglafánu í bæjarlandinu við vötnin, tjarnir, læki og strendur. Hundar eru velkomnir á skógræktar- og útivistarsvæðin í Smalaholti, Sandahlíð, Heiðmörk og vinsælt er að viðra hunda í Gálgahrauni.

Pappírstunnur

Innleiðing pappírstunna í bæjarfélaginu stendur yfir með kynningu til íbúa og merkingu tunna við hýbýli, sem merktar eru ýmist fyrir almennt sorp eða pappírsúrgang. Innleiðingin er samkvæmt áætlun sem birt var í Garðapóstinum, á gardabaer.is og með kynningarbæklingi og mun hún standa fram í maí.

Akstur utan vega

Það vill vera vandamál á vorin þegar frost er að fara úr jörðu að ljótar skemmdir koma í ljós á grassvæðum, þetta á sérstaklega við um grænar umferðaeyjar í íbúðagötum. Allur utanvegaakstur veldur tjóni og auknum kostnaði fyrir bæjarfélagið.

Stöndum saman um verndun náttúrunnar og snytilegt bæjarland.

Með vorkveðju
Erla Bil Bjarnardóttir,
umhverfisstjóri