16. sep. 2016

Réttindaskóli UNICEF

Flataskóli verður einn af þremur fyrstu Réttindaskólum UNICEF hér á landi
  • Séð yfir Garðabæ

Flataskóli verður einn af þremur fyrstu Réttindaskólum UNICEF hér á landi. Samkomulag þess efnis var undirritað í lok ágúst og markar tímamót. Réttindaskólar eru alþjóðlegt vottunarverkefni sem sýnt hefur mikinn árangur alþjóðlega.

Þátttökuskólarnir leggja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til grundvallar í öllu sínu starfi. Markmiðið er að byggja upp lýðræðislegt námsumhverfi, auka þekkingu á mannréttindum og stuðla að gagnkvæmri virðingu innan skólasamfélagsins. Með verkefninu er skapaður rammi utan um þau markmið sem koma fram í aðalnámskrá grunnskóla, grunnskólalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, jafnrétti og lýðræði. Ólöf S. Sigurðardóttir, skólastjóri Flataskóla segir að með þátttöku í verkefninu vilji starfsmenn skólans efla enn frekar lýðræðislegt námsumhverfi. "Við viljum líka gera börnin okkar færari í að þekkja og virða mannréttindi sem byggja á virðingu og jafnræði,“ segir Ólöf.

Mikil eftirspurn frá skólum

Starfsfólk UNICEF á Íslandi mun á skólaárinu vinna náið með skólunum þremur, Flataskóla, Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla og frístundamiðstöðvum þeirra að innleiðingu verkefnisins. Eftir ítarlega úttekt næsta vor geta skólarnir sótt um viðurkenningu sem Réttindaskólar.

„Ný aðalnámskrá fyrir grunnskóla leggur mikið upp úr mannréttindum og lýðræði. Frá því að hún var samþykkt höfum við hjá UNICEF á Íslandi fundið fyrir mikilli eftirspurn frá skólum og frístundamiðstöðvum eftir fræðslu og stuðningi við að uppfylla þessi metnaðarfullu markmið. Við erum því spennt að fara af stað með þetta tilraunaverkefni og stolt af því að fá Réttindaskóla til Íslands. Vonir standa til að geta boðið enn fleiri skólum þátttöku næsta vetur,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Frétt og mynd af vef UNICEF