5. apr. 2013

Þriðjudagsklassík í Garðabæ

Þriðjudagsklassík í Garðabæ, ný tónleikaröð á vegum menningar- og safnanefndar, hóf göngu sína sl. þriðjudagkvöld í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Það voru Garðbæingarnir og hjónin Hallfríður Ólafsdóttir, flautuleikari og Ármann Helgason, klarínettuleikari sem hófu leikinn en píanóleikari á tónleikunum var Ingunn Hildur Hauksdóttir.
  • Séð yfir Garðabæ

Þriðjudagsklassík í Garðabæ, ný tónleikaröð á vegum menningar- og safnanefndar, hóf göngu sína sl. þriðjudagkvöld í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Það voru Garðbæingarnir og hjónin Hallfríður Ólafsdóttir, flautuleikari og Ármann Helgason, klarínettuleikari sem hófu leikinn en píanóleikari á tónleikunum var Ingunn Hildur Hauksdóttir. Efnisskrá tónleikanna, sem bar yfirskriftina Vorstemningar, var einstaklega fjölbreytt og skemmtileg. Hin ýmsu litbrigði vorsins og söngur fuglanna fékk að njóta sín í túlkun listamannanna en einnig söng Ingibjörg Guðjónsdóttir, sópran og listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar með í nokkrum verkanna.

Gerður var sérlega góður rómur af sal Tónlistarskólans og fallegum hljómburði hans og má segja að salur þessi sé eitt best geymda leyndarmál Garðabæjar. Næstu tónleikar verða þriðjudagskvöldið 7. maí nk. en þá spilar Sigurgeir Agnarsson, sellóleikari (borinn og barnfæddur Garðbæingur) undurfagra tóna klassísku tónskáldanna Mendelssohn, Schumann og Massenet.