28. feb. 2013

Sunnuhvoll verður ungbarnaleikskóli

Leikskólanum Sunnuhvoli verður breytt í ungbarnaleikskóla fyrir börn á aldrinum 12-24 mánaða á næstu misserum.
  • Séð yfir Garðabæ

Leikskólanum Sunnuhvoli verður breytt í ungbarnaleikskóla fyrir börn á aldrinum 12-24 mánaða á næstu misserum. Með því vill bæjarstjórn koma betur til móts við fjölskyldur yngstu barnanna í Garðabæ. Engin breyting verður hjá þeim börnum sem eru nú þegar í leikskóla á Sunnuhvoli nema foreldrar óski eftir flutningi í annan leikskóla.

Breytingin á starfi leikskólans verður gerð í tveimur áföngum. Fyrri áfanginn verður haustið 2013 en þá verður deild yngri barnanna, Bangsadeild, breytt í ungbarnadeild um leið og börnin sem þar eru núna flytjast á Fiðrildadeild. Börn sem þá verða tekin inn í leikskólann dvelja þar í eitt ár.

Sunnuhvoll hentar vel undir starfsemi fyrir yngstu börnin. Staðsetningin er góð og stærð hans er heppileg fyrir ungbarnaleikskóla. Stjórnendur Sunnuhvols sjá í breytingunni ýmis tækifæri til þróunar í umönnun og námi barna á aldrinum 12-24 mánaða.

Fyrir er í Garðabæ ungbarnaleikskólinn Litlu-Ásar sem rekinn er af Hjallastefnunni. Fimmtán dagforeldrar starfa einnig í Garðabæ. Foreldrar greiða sama gjald hvort sem barnið er í vistun hjá dagforeldri eða á leikskóla, skv. þjónustusamningi bæjarins við dagforeldrana.