Samvinna matráða í leikskólum Garðabæjar
Matráðar í leikskólum Garðabæjar eiga með sér góða samvinnu og skiptast gjarnan á góðum ráðum. Nýlega hittust þeir allir á leikskólunum á Álftanesi.
Byrjað var á heimsókn í leikskólann Krakkakot þar sem matráðarnir nýttu tækifærið til að heilsa upp á hana sem á sér þar heimili og hænur sem gefa af sér egg. Á leikskólanum eru líka kanínur sem gæddu sér hinar rólegustu á brauðafgöngum og öðru góðgæti á meðan matráðarnir komu þar við. Eftir heimsóknina á Krakkakot lá leiðin yfir á Holtakot þar sem matráðarnir kynntu sér aðstæður og starfsemina.
Heimsóknirnar eru liður í samstarfi matráða en þeir hittast reglulega, bera saman bækur sínar, miðla góðum uppskriftum og fara yfir næringu og hollustu matar fyrir leikskólabörn.
Þess má geta að matráður Holtakots hafði deginum áður bakað 900 vatnsdeigsbollur fyrir börnin á leikskólanum, ömmur þeirra og mæður sem drukku með þeim morgunhressingu.