Söfn í Garðabæ bjóða í heimsókn
Föstudagskvöldið 8. febrúar nk. verður haldin Safnanótt á höfuðborgarsvæðinu. Í Garðabæ verður boðið upp á dagskrá í Hönnunarsafni Íslands, Króki á Garðaholti, Bókasafni Garðabæjar bæði á Garðatorgi og í útibúinu á Álftanesi - á öllum stöðunum verður opið hús frá kl. 19-24. En jafnframt verður opið hús á Bessastöðum frá kl. 16-20. Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð og fjórða árið í röð taka nú fjölmörg söfn af öllu höfuðborgarsvæðinu þátt.
Heimboð á Bessastaði frá kl. 16-20
Formleg dagskrá Safnanætur stendur yfir frá kl. 19 um kvöldið til miðnættis og ókeypis aðgangur er í öll söfn á Safnanótt. Í Garðabæ er þó hægt að taka forskot á sæluna og heimsækja Bessastaði frá kl. 16-20. Þar verður boðið upp á leiðsögn um elstu staðarhúsin á Bessastöðum en Bessastaðastofa og kirkjan voru reist á 18. öld. Unnt verður að skoða muni og mannvirki sem fundust við fornleifarannsókn, gjafir til forseta á lýðveldistíma og fyrsta forsetabíl lýðveldisins.
Leikspuni nema af leiklistarbraut FG og ,,Breimleikar á bókasafninu“
Í fyrra voru nemendur af leiklistarbraut FG með vel heppnaðan leikspuna í Bókasafninu og í Króki á Safnanótt. Nemendur af leiklistarbrautinni mæta nú aftur til leiks á Safnanótt og verða með leikspuna fyrir alla aldurshópa kl. 19:30 í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi. Í bókasafninu á Garðatorgi verður einnig hægt að hlýða á áhugaverðan fyrirlestur um ,,Skapandi bókverk“ með Sigurborgu Stefánsdóttur myndlistarkonu og forsprakka ,,Arkanna“. Fyrirlesturinn hefst kl. 20:45 og stendur í um hálftíma en jafnframt verður hægt að skoða sýnishorn af verkum ,,Arkanna“. Um klukkustund síðar eða kl. 21:45 mætir hinn skemmtilegi Svavar Knútur söngvari, gítarleikari og tónskáld og heldur stutta tónleika sem bera yfirskriftina ,, Breimleikar á bókasafninu“.
Menning á Álftanesi fyrr og nú
Í útibúi Bókasafns Garðabæjar sem er staðsett í Álftanesskóla (aðkoma við Eyvindarstaðaveg) verður boðið upp á söng og fyrirlestur. Um kl. 19:30 ætla ungar og og efnilegar stúlkur úr Álftanesskóla sem skipa sönghópinn ,,Sönglist” að taka nokkur lög undir stjórn Guðrúnar Árnýjar Karlsdóttur. Klukkan 20:30 flytur Anna Ólafsdóttir Björnsson tölvunar- og sagnfræðingur erindi sem ber heitið ,,Menning á Álftanesi – fyrr og nú“. Safnið verður einnig opið fyrir gesti og gangandi frá kl. 19-24.Innlit í Glit
Hönnunarsafn Íslands opnar sýninguna Innlit í Glit kl. 20 í húsakynnum safnsins á Garðatorgi 1. Leirbrennslan Glit var stofnuð af Einari Elíassyni, Ragnari Kjartanssyni, og Pétri Sæmundsen árið 1958. Í sýningarrýminu verður hægt að fylgjast með Önnu S. Hróðmarsdóttur leirlistamanni renna leir og gestum verður einnig boðið að móta smámuni úr leir og skilja eftir á ,,Verkstæðinu“.
Burstabærinn Krókur opinn frá kl. 19-24
Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Bærinn er gott dæmi um húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks á þessum landshluta á fyrri hluta 20. aldar. Krókur er staðsettur stutt frá samkomuhúsinu á Garðaholti þar sem hægt er að leggja bílum við gatnamót Garðavegar og Garðaholtsvegar.
Hér í dagbókinni á vefsíðu Garðabæjar er hægt að sjá dagskrána hjá söfnunum í Garðabæ og á heimasíðu Vetrarhátíðar, www.vetrarhatid.is., er hægt að sjá dagskrána í heild sinni.