28. jan. 2013

Lært um læsi í leikskólum

Læsi og samskipti í leikskólum var heiti námskeiðs sem 40 leikskólakennarar sóttu í gamla Betrunarhúsinu við Garðatorg 24. janúar sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Læsi og samskipti í leikskólum var heiti námskeiðs sem 40 leikskólakennarar sóttu í gamla Betrunarhúsinu við Garðatorg 24. janúar sl.

Málþroski og orðaspjall

Á námskeiðinu fjallaði Rannveig Oddsdóttir, kennari og doktorsnemi við Menntavísindasvið HÍ um málþroska leikskólabarna og mikilvægi hans fyrir samskipti og þróun læsis. Sagt var frá íslenskum og erlendum rannsóknum á þessu sviði og rætt um hvaða ályktanir megi draga af þeim um æskilegar áherslur í málörvun leikskólabarna.

Árdís Hrönn Jónsdóttir, verkefna- og sérkennslustjóri í Tjarnarseli fjallaði um Orðaspjallsaðferðina sem er leið til að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri. Aðferðin felst í að kenna og leika með orð úr barnabókum. Orðin eru valin úr svokölluðu millilagi orðaforðans en það eru orð sem leynast víða í rituðum texta og skipta miklu máli fyrir lesskilning þegar reyna fer á hann síðar á skólagöngunni.

Fræðilegt og hagnýtt

Námskeiðið mæltist vel fyrir hjá þátttakendum sem sögðu það góða blöndu af fræðilegu innleggi og hagnýtum ráðum. Þátttakendur nefndu einnig hversu áhugaverðar rannsóknir á orðaforða barna eru og hversu mikilvæg orðaforðakennsla er í daglegu lífi barna.

Námskeiðið varhaldið að tilstuðlan menntanefndar leikskóla Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar, Kópavogs og Seltjarnarness.