25. jan. 2013

Garðbæingum fjölgar

Íbúum í Garðabæ og Kópavogi fjölgaði hlutfallslega mest á síðasta ári, sé horft til stærstu sveitarfélaga landsins
  • Séð yfir Garðabæ

Íbúum í Garðabæ fjölgaði um 163 á síðasta ári sem er fjölgun um 1,48%.  Sé horft til stærstu sveitarfélaga landsins er það aðeins i Kópavogi sem fjölgunin er örlítið meiri en þar nam hún 1,52%.

Þetta leiðir nýuppfærð íbúaskrá Þjóðskrár í ljós en stofnunin gefur 1. desember ár hvert út lögbundna íbúaskrá fyrir sveitarfélög landsins. Alls fjölgaði landsmönnum um 2010 á fyrstu 11 mánuðum ársins 2012.

Garðbæingum fjölgaði þó enn meira á nýársnótt því þeir voru orðnir hátt í 14 þúsund 1. janúar 2013. Þá var orðið til nýtt sveitarfélag undir nafninu Garðabær, sameinað sveitarfélag Garðabæjar og Álftaness.