22. jan. 2013

Nörd ársins í Hofsstaðaskóla

Rakel Sölvadóttir hjá Skema og kennari í forritun í Hofsstaðaskóla var valin nörd ársins í samkeppni sem fyrirtækið Advania efndi til nýlega meðal 10 þúsund viðskiptavina og samstarfsaðila sinna.
  • Séð yfir Garðabæ

Rakel Sölvadóttir hjá Skema og kennari í forritun í Hofsstaðaskóla var valin nörd ársins í samkeppni sem fyrirtækið Advania efndi til nýlega meðal 10 þúsund viðskiptavina og samstarfsaðila sinna. Í viðtali sem birtist í Íslandi í dag á Stöð 2, segist Rakel bera titilinn nörd, með miklu stolti.

Liðlega 300 manns hlutu tilnefningar í valinu. Óháð dómnefnd sérfræðinga í faginu fór síðan yfir tilnefningar og valdi nörd ársins með hliðsjón af þeim.

Áhrif kennslu í forritun á getu og líðan barna

Rakel hefur í vetur kennt forritun í 5. bekk í Hofsstaðaskóla og staðið að þróunarverkefni sem gengur út á innleiðingu á kennslu í forritun í almennri kennslu í grunnskólum. Samhliða vinnur Rakel og fyrirtæki hennar Skema að stórri rannsókn í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Markmið rannsóknarinnar er að skoða þau áhrif sem kennsla í forritun hefur á hugræna getu og líðan grunnskólabarna. Verkefnið hefur farið vel af stað í Hofsstaðaskóla, nemendur hafa verið áhugasamir og þeir láta vel af kennslunni.

Elur upp næstu kynslóðir nörda

Í umsögn dómnefndar segir m.a. um Rakel: „Rakel er stofnandi Skema og brautryðjandi í kennslu í forritun og hugbúnaðarþróun fyrir börn og unglinga. Hún hefur einnig þróað framsækinn kennsluhugbúnað sem hún herjar nú með á erlendan markað. Rakel elur núna upp næstu kynslóðir nörda og sameinar það að vera frumkvöðull, fræðikona, jákvæð og uppörvandi manneskja og sannur leiðtogi á sínu sviði.“ 
 
Nánar um val á nörd ársins:

Viðtalið í Íslandi í dag, á visir.is 
Frétt um nörd ársins á vef Hofsstaðaskóla
Frétt um nörd ársins á vef Advania 
Frétt um nörd ársins á mbl.is