14. jan. 2013

Andrea og Justin eru íþróttamenn Garðabæjar 2012

Andrea Sif Pétursdóttir og Justin Christopher Shouse eru íþróttamenn Garðabæjar 2012. Vali þeirra 2012 var lýst við veglega verðlaunahátíð í FG 13. janúar. Valið fór fram með netkosningu bæjarbúa auk valnefndar íþrótta og tómstundaráðs bæjarins.
  • Séð yfir Garðabæ

Andrea Sif Pétursdóttir og Justin Christopher Shouse eru íþróttamenn Garðabæjar 2012. Vali þeirra 2012 var lýst við veglega verðlaunahátíð í FG 13. janúar.  Valið fór fram með netkosningu bæjarbúa auk valnefndar íþrótta- og tómstundaráðs bæjarins.

Andrea Sif Pétursdóttir, fimleikakona í Stjörnunni

Íþróttakona Garðabæjar 2012 er Andrea Sif Pétursdóttir. Andrea Sif er 16 ára fimleikakona sem setur æfingar og lið sitt framar öllu öðru. Hún er fyrirmynd allra í Stjörnunni, hvort sem er fyrir yngri flokka eða eldri, fimleikafélaga, vini, þjálfara og foreldra.

Helsti árangur Andreu á árinu var Evrópumeistaratitill í hópfimleikum í Aarhus í Danmörku í október sl. Að auki var hún Íslandsmeistari unglinga í febrúar, Íslandsmeistari yngri flokks í mars, náði öðru sæti á Íslandsmóti eldri flokks í apríl, fimmta sæti á NM unglinga og öðru sæti á bikarmóti eldri hóps í nóvember.

Andrea Sif hefur sýnt yfirburða getu og vilja til þess að vinna á veikleikum í tækni, styrk og þoli og jafnframt veikleikum hjá sjálfri sér. Hún skilur mikilvægi þess að setja sér markmið, skilur mikilvægi góðs liðsanda og þess að án liðsins næst ekki tilætlaður árangur. Hún skarar fram úr í fimleikasalnum sem fyrirmynd vegna félagslegrar hæfni, leiðtogahæfileika og sjálfsaga. 

Justin Christopher Shouse, körfuknattleiksmaður í Stjörnunni

Íþróttakarl Garðabæjar 2012 er Justin Christopher Shouse. Justin Shouse er 31 árs körfuknattnleiksmaður sem er að spila sitt fimmta tímabil með Stjörnunni. Hann hefur vaxið jafnt og þétt sem leikmaður og leiðtogi liðsins og er nú að eiga sitt besta tímabil með Stjörnunni. Justin er leikmaður sem aðrir leita til þegar illa gengur og oftar en ekki er hann sá sem stígur upp þegar á þarf að halda.

Í lok síðasta keppnistímabils var Justin valinn besti íslenski leikmaður úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik fyrir tímabilið 2011-12. Þetta eru stærstu einstaklingsverðlaun í íslenskum körfubolta.

Justin var valinn í íslenska landsliðshópinn í sumar fyrir Evrópukeppnina, en varð að draga sig út úr hópnum vegna veikinda sem upp komu í fjölskyldunni.
Auk þess að vera leiðtogi liðsins inná á vellinum er Justin mikil fyrirmynd fyrir yngri kynslóðina. Hann hefur þjálfað yngri flokka Stjörnunnar með frábærum árangri undanfarin ár og varð Íslandsmeistari með 11. flokk í vor. 

Framlag til íþrótta- og æskulýðsmála

Sex einstaklingar voru við sama tilefni heiðraðir fyrir áratuga framlag til íþrótta- og æskulýðsmála.

Magnús Teitsson íþróttakennari og handboltaþjálfari hefur starfað nær óslitið að framgangi handboltaíþróttarinnar í Garðabæ frá því að sú íþrótt fór að skjóta rótum í bæjarfélaginu, fyrst sem iðkandi og síðan þjálfari.Magnús hefur verið iðinn við að hvetja ungmenni áfram til að stunda heilsusamlegt líferni og íþróttir í gegnum starf sitt í 30 ár sem íþróttakennari. Hann hefur því markað leið margra ungmenna á íþróttasviðinu.

Anný Antonsdóttir, Elsa Þórisdóttir, Kristín Helgadóttir, Herborg Þorgeirsdóttir og Pálína Hinriksdóttir hafa allar starfað í kvennahlaupsnefnd á vegum almenningsíþróttadeildar Stjörnunnar í 10 – 12 ár. Hópurinn er samheldinn, samvinnan er frábær og verkaskipting skýr. Verkefnalisti hvers árs er nokkuð langur en nú orðið þarf ekki marga fundi til þess að undirbúa hlaupið, því ljóst er hvað þarf að gera og hver gerir hvað. Kvennahlaupið hefur verið upphafið að reglulegri hreyfingu hjá fjölda ungra stúlkna og kvenna í gegnum árin.

Fleiri viðurkenningar

Að auki fengu 267 einstaklingar viðurkenningar fyrir Íslands-, bikar- eða deildarmeistaratitla á árinu, 84 fengu viðurkenningar fyrir landsliðsþátttöku, 21 ungmenni fékk viðurkenningu sem efnilegasta ungmennið í sinni íþróttagrein og átta fengu viðurkenningu fyrir góða ástundun í almenningsíþróttum og íþróttum aldraðra.