11. jan. 2013

Of Monsters and Men heiðruð

Hljómsveitin Of Monsters and Men heldur stórtónleika í Garðabæ í haust. Þetta kom fram í máli Gunnars Einarssonar bæjarstjóra í móttöku sem bæjarstjórn efndi til, til að fagna frábærum árangri hljómsveitarinnar. Þrír af fimm meðlimum hljómsveitarinnar eru úr Garðabæ
  • Séð yfir Garðabæ

Hljómsveitin Of Monsters and Men heldur stórtónleika í Garðabæ í haust. Þetta kom fram í máli Gunnars Einarssonar bæjarstjóra í móttöku sem bæjarstjórn efndi til, til að fagna frábærum árangri hljómsveitarinnar. Þrír af fimm meðlimum hljómsveitarinnar eru úr Garðabæ og fjórði meðlimurinn, söngkonan Nanna Bryndís, býr nú í Garðabæ.

Hljómsveitin leggur af stað í tónleikaferðalag á næstu dögum sem stendur fram í ágúst. Í ferðalaginu mun hún troða upp á ótal tónleikum í fimm heimsálfum. Fyrstu tónleikarnir verða í Tokyo í Japan en leið hljómsveitarinnar mun einnig liggja til Ástralíu, Evrópu, Suður-Ameríku og Bandaríkjanna.

Í móttökunni í gær var undirritaður leigusamningur um æfingahúsnæði fyrir hljómsveitina í Garðabæ en þar hyggjast hljómsveitarmeðlimir vinna að nýju efni að tónleikaferð lokinni. Gunnar Einarsson bæjarstjóri segir það afar ánægjulegt að hljómsveitin komi sér upp æfingahúsnæði í Garðabæ og vonar að hljómsveitinni líði vel í bænum og njóti velgengi á krefjandi tónleikaferðalagi sem framundan er. Hann greindi einnig frá því, við góðar undirtektir viðstaddra, að leigugjaldið væri að hljómsveitin héldi stóra útitónleika í Garðabæ í haust.

Meðlimir Of Monsters of Men eru: Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, Brynjar Leifsson, Ragnar Þórhallsson, Arnar Rósenkranz Hilmarsson og Kristján Páll Kristjánsson.

Nanna er úr Garðinum og Brynjar er frá Keflavík. Þeir Ragnar, Arnar og Kristján Páll eru allir úr Garðabæ. Kristján og Arnar hafa báðir verið í nokkrum hljómsveitum í Garðabæ og Kristján stundaði nám við Tónlistarskóla Garðabæjar. Þeir stunduðu allir nám við Fjölbrautarskólann í Garðabæ.

Fleiri myndir frá móttökunni eru á facebook síðu Garðabæjar.

Vefur hljómsveitarinnar Of Monsters and Men