20. des. 2012

Góð staða nýs sveitarfélags

Fjárhagsstaða sameinaðs sveitarfélags Garðabæjar og Álftaness er sterk skv. fjárhagsáætlun sem samþykkt var í bæjarstjórn Garðabæjar í dag. Gert er ráð fyrir 346 milljóna króna rekstrarafgangi á árinu 2013
  • Séð yfir Garðabæ

Fjárhagsstaða sameinaðs sveitarfélags Garðabæjar og Álftaness er sterk skv. fjárhagsáætlun sem samþykkt var í bæjarstjórn Garðabæjar í gær. Gert er ráð fyrir 346 milljóna króna rekstrarafgangi á árinu 2013 og að skuldir sveitarfélagsins verði vel undir viðmiðunarmörkum skv. nýjum reglum um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga.

Tekjur sameinaðs sveitarfélags verða um 9 milljarðar á árinu 2013 og gjöld án fjármagnsliða um 8,1 milljarðar. Þegar tekið hefur verið tillit til fjármagnsliða er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða ársins 2013 verði jákvæð um 346 milljónir króna.

Eins og mælt er fyrir um í nýjum sveitarstjórnarlögum er fjárhagsáætlun nú gerð til fjögurra ára í senn. Gunnar Einarsson bæjarstjóri segir ánægjulegt að sjá hversu vel áætlunin rími við þá útreikninga sem koma fram í greinargerð R3-Ráðgjafar sem unnin var fyrir samstarfsnefnd um sameiningu. „Allar helstu stærðir í áætluninni sem nær til áranna 2013-2016 eru í samræmi við það sem kom fram í þeim útreikningum. Við sjáum að fjárhagurinn er góður strax á fyrsta ári sameinaðs sveitarfélags og styrkist hratt eftir því sem líður á tímabilið sem áætlunin nær til.“

Hvatapeningar hækka

Eins og fyrr eru fræðslumál lang stærsti málaflokkurinn hjá sveitarfélaginu. Til þeirra verður varið um 4,1 milljörðum króna. Æskulýðs- og íþróttamál eru næst stærsti málaflokkurinn. Til hans er varið um 930 millj. króna. Á árinu 2013 fá öll börn á aldrinum 5-18 ára í sameinuðu sveitarfélagi hvatapeninga til að lækka kostnað við íþrótta- og tómstundastarf. Hvatapeningar hækka á árinu 2013 og verða 27.500 krónur á hvert barn.

Skuldir vel innan marka

 Heildarskuldir sameinaðs sveitarfélags nema 9,8 milljörðum króna í lok árs 2013, sem gerir 109% af tekjum. Í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að skuldir sveitarfélags megi ekki nema meira en 150% af tekjum þess og því er nýtt sveitarfélag vel undir þeim mörkum. Gert er ráð fyrir að skuldir verði greiddar niður á næstu árum og að þær verði komnar niður í 8,7 milljarða í lok ársins 2016. Rekstarafkoma sveitarfélagsins batnar einnig á næstu árum og er gert ráð fyrir að hún verði jákvæð um 920 milljónir á árinu 2016.

Skuldir og skuldbindingar á hvern íbúa verða 702 þúsund krónur á árinu 2013 og verða komnar niður í 597 þúsund krónur árið 2016.

Framkvæmdir

Í áætluninni er gert ráð fyrir að framkvæmt verði fyrir 1,2 milljarð króna á árinu 2013. Stærstu framkvæmdirnar eru við nýtt hjúkrunarheimili á Sjálandi upp á 250 milljónir króna, við miðbæ Garðabæjar upp á 200 milljónir og við Hofsstaðaskóla í Garðabæ upp á 50 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að 100 milljónum króna verði varið í framkvæmdir á Álftanesi og er stærsta framkvæmdin þar lagfæring á skólasvæði við Álftanesskóla og Álftaneslaug.

Íbúafjöldi í hinu nýja sveitarfélagi verður ríflega 14 þúsund á árinu 2013 og er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 500 á næstu þremur árum.

Fjárhagsáætlun 2013-2016