18. des. 2012

Fékk Grænfánann í annað sinn

Mánudaginn 17. desember tóku starfsfólk og börn í skólahópnum á Heilsuleikskólanum Holtakoti, á móti Grænfánanum í annað sinn.
  • Séð yfir Garðabæ

Heilsuleikskólinn Holtakot er annar af tveimur leikskólum á Álftanesi. Þar eru 73 börn og 22 starfsmenn. Á Holtakoti er starfað eftir heilsustefnu og áhersla lögð á hreyfingu, hollt matarræði og listsköpun.

Unnu verkefni á sviði Lýðheilsu

Mánudaginn 17. desember tóku starfsfólk og börn í skólahópnum á Heilsuleikskólanum Holtakoti, stolt á móti Grænfánanum í annað sinn. Verkefnið sem börn og starfsfólk höfðu unnið að, að þessu sinni er  Lýðheilsa sem er algjörlega í takt við heilsustefnu skólans. Fáninn var afhentur um morguninn og dreginn að húni í garði leikskólans. Að athöfn lokinni var gestum boðið upp á heimabakað brauð og pestó að hætti Holtakots.

Það eru tvö ár síðan skólinn fékk Grænfánann í fyrsta sinn en sækja þarf um hann annað hvort ár.

Nýtur virðingar í Evrópu

Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Til að hljóta Grænfánann þurfa skólar að hafa stigið sjö skref í átt að aukinni umhverfismennt. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál og lúta bæð að kennslu og að því að bæta daglegan rekstur skólans.