7. sep. 2016

Nýtt aðkomutákn Garðabæjar

Nýtt aðkomutákn Garðabæjar, sem valið var eftir samkeppni á meðal hönnuða og myndlistarmanna, er fléttað saman úr þremur jafnstórum flötum römmum í þrívítt verk
  • Séð yfir Garðabæ

Nýtt aðkomutákn Garðabæjar, sem valið var eftir samkeppni á meðal hönnuða og myndlistarmanna, er fléttað saman úr þremur jafnstórum flötum römmum í þrívítt verk. Verkinu er ætlað að marka aðkomu að bænum og það svæði sem honum tilheyrir. Vinningstillagan kom frá Teiknistofunni Tröð og var unnin af Sigríði Magnúsdóttur arkitekt FAÍ, Hans-Olav Andersen arkitekt FAÍ, Magnúsi Andersen ljósmyndara og Nínu Solveigu Andersen.

Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. „Í verkinu felast margræðar skírskotanir til samfélags fólks og náttúru þar sem einfalt form er sett saman á listrænan hátt svo það myndar flókið samspil. Verkið getur vísað til ólíkra sjónarhorna og það rammar inn síbreytilega náttúru innan bæjarfélags sem er í sókn og vexti. Auðkennismarkið er óvænt og djörf útfærsla sem getur dregið til sín athygli og sómt sér vel í landslagi.“

Í texta sem fylgdi vinningstillögunni segir að aðkomutáknið geti verið ákjósanlegur áningastaður fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur þar sem setjast megi á neðsta hluta rammans og þeir sem hafa gaman að klifri geti spreytt sig. Einnig kemur fram að aðkomutákninu sé tyllt á þrjár undirstöður og að leitast sé við að raska landinu umhverfis eins lítið og kostur er.

Hægt er að útfæra táknið úr mismunandi efnum og í ólíkum stærðum eftir því hvað hentar á hverjum stað.

Samkeppnin sem efnt var til í vor var haldin í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands. Samkeppnin var opin hönnuðum og listamönnum og var haldin í tilefni af 40 ára afmæli Garðabæjar sem kaupstaðar sem fagnað er á þessu ári. Leitað var að tákni fyrir bæinn sem er ætlað að marka bæjarmörk en einnig kom fram að þema þess verði nýtt á margvíslegan hátt eins og við gerð listmuna, bréfsefnis, vefsíðu o.s.frv.
Verðlaunin voru afhent á Garðatorgi laugardaginn 3. september á hátíðahöldum í tilefni afmælisins. Í verðlaun voru 2 milljónir króna.

Í Hönnunarsafni Íslands stendur yfir sýning á þeim 14 tillögum sem bárust í keppnina og verður hún opin til 16. október næstkomandi.

Vinningstillagan

Dómnefnd skipuðu:
Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar og formaður dómnefndar
Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands
Hildigunnur Gunnarsdóttir, grafískur hönnuður FÍT
Hringur Hafsteinsson, listrænn stjórnandi Gagarín
Michael Blikdal Erichsen, arkitekt hjá T.ark