14. des. 2012

Unnið að sameiningu

Starfsfólk á bæjarskrifstofunum í Garðabæ vinnur þessa dagana að því að undirbúa sameiningu sveitarfélaganna Garðabæjar og Álftaness eins vel og hægt er. Sameiningin tekur gildi 1. janúar 2013.
  • Séð yfir Garðabæ

Starfsfólk á bæjarskrifstofunum í Garðabæ vinnur þessa dagana að því að undirbúa sameiningu sveitarfélaganna Garðabæjar og Álftaness eins vel og hægt er.  Sameiningin tekur gildi 1. janúar 2013.

Mörg verkefni í stjórnsýslunni

Frá áramótum verður öll stjórnsýsla og þjónusta við íbúa í sameinuðu sveitarfélagi í Ráðhúsinu við Garðatorg.  Að ýmsu er að hyggja í stjórnsýslunni í þessu sambandi, t.d. hvað varðar tölvukerfi, bókhald, launavinnslu og skjalamál. Verkefnin eru mörg, fjölbreytt og spennandi og er vinnuandinn í Ráðhúsinu litaður af því.

Starfsfólk þjónustuversins sem er á jarðhæð Ráðhússins býr sig undir að geta svarað fyrirspurnum um þjónustu nýs sveitarfélags. Í launadeildinni búa starfsmenn sig undir fjölgun starfsmanna og í tölvudeildinni er hugað að því að samræma tölvukerfi þessara tveggja sveitarfélaga. Starfsfólk fjármáladeildar vinnur hörðum höndum að því að sameina bókhald, fjárhagskerfi o.fl.

Á fagsviðunum fer líka mikil vinna fram þar sem samræma þarf starf stofnana nýs sveitarfélags. Í nýju sveitarfélagi verða m.a. 11 leikskólar og sjö grunnskólar.

Hugarflug og rútuferð

Starfsfólkið gaf sér þó tíma í vikunni til að horfa vítt yfir sviðið, annars vegar með því að halda hugarflugsfund um hvernig sameiningin geti best gengið fyrir sig og hins vegar með því að fara í rútuferð um Álftanes undir leiðsögn Snorra Finnlaugssonar, bæjarstjóra á Álftanesi og Önnu Ólafsdóttur Björnsson sagnfræðingi. Þar fræddust starfsmenn um Álftanes í fortíð og nútíð, um drauga og menn, kot og stórbýli svo eitthvað sé nefnt.