16. nóv. 2012

Börn og bílar í Garðabæ

Í mesta skammdeginu er enn meiri ástæða fyrir ökumenn að sýna tillitssemi og aðgát í íbúðahverfum bæjarins.
  • Séð yfir Garðabæ

Í mesta skammdeginu er enn meiri ástæða fyrir ökumenn að sýna tillitssemi og aðgát í íbúðahverfum bæjarins. Í því felst m.a. að virða 30 km hámarksökuhraða og að gæta að því að leggja ekki bílum upp á gangstéttir þannig að þær hindri för barna og annarra gangandi vegfarenda. 

Gangstéttir eru fyrir gangandi

Íbúðahverfi bæjarins eru fyrir fjölskyldur og eðli málsins samkvæmt má gera ráð fyrir að þar séu börn á ferðinni og að leik. Skólabörn á leið í skólann sinn eða í tómstundastarf þurfa að komast leiðar sinnar eftir gangstéttum á öruggan hátt, enda eru gangstéttar ætlaðar gangandi vegfarendum. Það er því afar brýnt að bílum sé ekki lagt að hluta eða öllu leyti upp á gangstéttir eins og því miður vill oft gerast.

30 km hámarkshraði

Eitt af meginmarkmiðunum með 30 km hverfunum er að bæta umferðaröryggi óvarinna vegfarenda. Rannsóknir hafa sýnt að það gefur góða raun að lækka hámarkshraða þar sem blandast saman umferð gangandi og akandi til að koma í veg fyrir alvarleg meiðsl í umferðarslysum. Líkurnar á banaslysum margfaldast þegar umferðarhraði er kominn upp fyrir 30 km/klst. Það er því engin tilviljun að sú viðmiðun er notuð við ákvörðun hámarkshraða í íbúðahverfum.

Myndin hér fyrir neðan sýnir sambandið á milli ökuhraða (á lárétta ásnum) og líkum á banaslysi ef ekið er á óvarinn vegfaranda (lóðrétti ásinn).

Samband umferðarhraða og banaslysa

Endurskinsmerkin bjarga

Gangandi vegfarendur þurfa líka að gæta fyllstu varúðar í skammdeginu. Eitt af því besta sem þeir geta gert til að auka öryggi sitt er að nota endurskinsmerki.

Á facebook síðu lögreglu höfuðborgarsvæðisins er myndband sem sýnir vel hversu miklu máli endurskinsmerkin skipta.

https://www.facebook.com/photo.php?v=10151182132209003

Börn í endurskinsvestum

Verndum börnin okkar, virðum hámkarkshraða og leggjum í bílastæði.

Leggjum ekki svona
 

Bíll skagar út á gangstétt

Bílar á gangstétt

Bíll uppi á gangstétt