15. nóv. 2012

Efnilegur píanisti í Garðabæ

Kjartan Jósefsson Ognibene, píanónemandi í Tónlistarskóla Garðabæjar hlaut þriðju verðlaun í sínum aldursflokki í píanókeppni EPTA í Salnum í Kópavogi um sl. helgi.
  • Séð yfir Garðabæ
Kjartan Jósefsson Ognibene, píanónemandi í Tónlistarskóla Garðabæjar hlaut þriðju verðlaun í sínum aldursflokki í píanókeppni EPTA í Salnum í Kópavogi um sl. helgi. Kjartan er 21 árs gamall og hefur stundað píanónám næstum eins lengi og hann man eftir sér.

„Ég var 6 ára þegar mamma kenndi mér að lesa nótur og spila einföld lög og æfingar, svo hóf ég píanónám 7 ára við Tónlistarskólann í Garðabæ,” segir Kjartan.

Fékk starfslaun sumarið 2012

Kjartan hefur undanfarið eitt og hálft ár lært hjá Guðrúnu Dalíu Salómonsdóttur en lærði áður hjá Peter Maté, Ástríði Öldu Sigðurðardóttur og Bjargeyju Þrúði Ingólfsdóttur. Hann fékk starfslaun frá Garðabæ sumarið 2012 og segir þau hafa gert sér kleift að nota sumarið til að undirbúa sig fyrir keppnina. „Mér hefði alveg örugglega ekki gengið jafn vel í EPTA keppninni hefði ég þurft að vinna í Krónunni þetta sumar,“ segir hann. Hann bætir við að það sé gríðarlega hvetjandi fyrir unga hljóðfæraleikara að taka þátt í keppnum eins og EPTA keppninni. „ Að minnsta kosti var keppnin mér mikill hvati, ég held ég hafi aldrei æft mig jafn vel né tekið jafn miklum framförum og ég gerði mánuðina fyrir keppnina.“

Spilar þungarokk á bassa

Árangur eins og sá sem Kjartan hefur náð kemur ekki af sjálfum sér. Að baki honum liggja gífurlegar æfingar og mikill áhugi enda segist Kjartan líta svo á að það sé tímasóun að gera annað en það sem hann hafi áhuga á. Áhugamál hans eru þó ekki eingöngu bundin við píanóið. „Ég er mikill tónlistarunnandi og hef gaman af alls konar tónlist. Auk klassískrar tónlistar hef ég mikinn áhuga á þungarokki og spila á bassa í hljómsveit með vinum mínum. Svo vinn ég á frístundaheimili við Fossvogsskóla þar sem ég vinn með krökkum á aldrinum 5-10 ára. Þegar ég er ekki að æfa mig eða vinna reyni ég að kíkja í Klifurhúsið, sund eða á hjólabretti þegar veður leyfir.“

Margt framundan

Útskriftartónleikar Kjartans verða 7. desember nk. kl. 18 en þeir marka þó ekki endalokin á píanónámi Kjartans. „Ég stefni á að sækja um skólavist í nokkrum tónlistarháskólum í Evrópu fyrir næsta skólaár, hvert ég fer nákvæmlega verður ákveðið síðar en ég mun að öllum líkindum halda áfram í píanónámi, hvort sem það verður erlendis eða heima á Íslandi." 

Mikilvæg keppni

EPTA keppnin er ein mikilvægasta og best þekkta keppnin á Íslandi í flutningi klassískrar tónlistar. Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari vann fyrstu keppni EPTA árið 2000 en hún hefur verið haldin á þriggja ára fresti eftir það. Keppnin er ætluð píanónemendum 25 ára og yngri og er henni skipt upp í þrjá flokka; 1. flokkur 14 ára og yngri, 2. flokkur 18 ára og yngri og 3. flokkur 25 ára og yngri.

Kjartan lék eftirfarandi verk í EPTA keppninni:

Í forkeppninni:

• F. Chopin: Etýða op.25, nr. 12
• Daníel Bjarnason: 4 lög fyrir píanó
• L.v. Beethoven: Sónata op. 27 nr. 1, Quasi una fantasia

Í úrslitakeppninni:

J.S. Bach: Prelúdía og fúga í f-moll úr WTC, bók 2
J. Brahms: Intermezzo, op. 118 nr 1 og nr 2
C. Debussy: Reflets dans l'eau úr Images I