9. nóv. 2012

Draumasveitarfélagið Garðabær

Garðabær er draumasveitarfélagið þriðja árið í röð, samkvæmt úttekt tímaritsins Vísbendingar
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær er draumasveitarfélagið þriðja árið í röð, samkvæmt úttekt tímaritsins Vísbendingar.

Lágt útsvar og lágar skuldir

Draumasveitarfélagið er það sveitarfélag sem best er statt fjárhagslega samkvæmt nokkrum mælikvörðum sem tímaritið gefur sér. Garðabær fær einkunnina 9,0 í úttektinni en næst í röðinni er Akureyri með 7,2 í einkunn. Það sem gerir Garðabæ að draumasveitarfélaginu er m.a. að útsvarsprósentan er lægri en annars staðar, afkoma er hófleg og skuldir sem hlutfall af tekjum eru lágar. Í frétt Vísbendingar kemur fram að það eina sem veiki bæjarfélagið í einkunnagjöfinni sé að veltufjárhlutfall er nokkuð hátt sem þýðir að peningastaðan sé í raun "of rúm" en í slíkum tilfellum væri betra að greiða niður skuldir eða lækka útsvar enn meira.

Græða á sameiningunni

Vísbending varar við því að einkunn bæjarfélagsins muni lækka eftir sameiningu við Álftanes. Það sé hinsvegar aðeins skammtíma bakslag því samkvæmt áætlunum verði einkunnin komin í 8,7 árið 2014 og 9,1 árið 2016.  Samkvæmt því hafi íbúar beggja sveitarfélaga grætt á sameiningunni.

Samkvæmt töflu sem fylgir fréttinni hefur íbúum í Garðabæ fjölgað mest af íbúum sveitarfélaga landsins frá 2011 til 2012 eða um 3,4%.  Tekjur á mann eru hinsvegar þær sjöundu lægstu í Garðabæ af sveitarfélögum landsins skv. fréttinni en þá eru teknar inn í myndina útsvarstekjur og framlög frá Jöfnunarsjóði.