9. nóv. 2012

Dagur gegn einelti

Fimmtudaginn 8. nóvember var haldinn sérstakur baráttudagur gegn einelti. Dagurinn var nú haldinn í annað sinn að frumkvæði verkefnastjórnar gegn einelti hér á landi. Í Garðabæ tóku skólar þátt með ýmsum hætti til að vekja athygli á þessum baráttudegi.
  • Séð yfir Garðabæ

Fimmtudaginn 8. nóvember var haldinn sérstakur baráttudagur gegn einelti.  Dagurinn var nú haldinn í annað sinn að frumkvæði verkefnastjórnar gegn einelti hér á landi.  Í Garðabæ tóku skólar þátt með ýmsum hætti til að vekja athygli á þessum baráttudegi. Þó að þessi dagur sé sérstaklega tileinkaður einelti þá er markvisst unnið að einelti allt árið um kring í skólunum.  

Horft á myndband kvennalandsliðsins í fótbolta

Í Flataskóla var horft á myndbandið sem kvennalandsliðið í fótbolta gerði um einelti, unnið var með textann og málið rætt í öllum bekkjum.  Nemendur í Flataskóla gerðu veggspjöld með slagorðum gegn einelti sem hanga uppi í anddyri Ásgarðs íþróttahúsi Garðabæjar, á Garðatorgi og í skólanum.

Undanfarna daga hefur starfsfólk og nemendur Hofsstaðaskóla unnið að fjölbreyttum verkefnum í tengslum við jákvæð samskipti. Á fjölgreindaleikunum, sem fram fóru dagana 31. október og 1. nóvember, unnu allir nemendur skólans í 13-14 manna hópum sem fóru á milli stöðva þar sem leyst voru ýmis verkefni.  Finna má verkefni nemenda á Garðatorgi, fyrir utan bókasafnið.  Þann 8. nóvember fengu allir nemendur Hofsstaðaskóla gul armbönd með áletruninni "Jákvæð samskipti" til að minna á mikilvægi jákvæðra samskipta. Margir nemendur fengu kynningu frá Gunnhildi Yrsu landsliðskonu í fótbolta þar sem hún ræddi um mikilvægi jákvæðra samskipta og mikilvægi þess að fagna fjölbreytileikanum og sýndi þeim myndbandið sem landsliðiskonurnar gerðu.

Í Fréttablaðinu birtist nýverið grein eftir Elvu Björk Ágústsdóttur námsráðgjafa Hofsstaðaskóla þar sem hún hvetur fólk til að deila góðum hugmyndum í baráttunni gegn einelti.
http://visir.is/leynast-god-verkefni-eda-urraedi-i-pokahorni-thinu-/article/2012711079983

Gagn og gaman dagar í Garðaskóla

Í Garðaskóla standa yfir ,,Gagn og gaman dagar" þar sem hefðbundið skólastarf er brotið upp og í boði eru ýmsar vinnusmiðjur fyrir nemendur.  Á Garðatorgi hanga uppi spjöld eftir nemendur sem eru verkefni sem þeir hafa unnið með umsjónarkennurum sínum um samskipti og einelti.  Þar var lögð áhersla á að allir tækju afstöðu gegn einelti hvers konar og fram fór hugstormun og umræða við vinnslu verkefnanna.  Skólastjóri skólans sendi einnig öllum foreldrum bréf  þar sem tekið er á tilteknum atriðum sem varða forvarnir gegn einelti á meðal unglinganna okkar.

 Á heimasíðunni www.gegneinelti.is er hægt að skrifa undir þjóðarsáttmála gegn einelti.