7. nóv. 2012

Finndu þinn X-faktor

Um 20 stúlkur í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ hafa undanfarnar vikur sótt námskeiðið Finndu þinn X-faktor. Stúlkurnar fengu í dag afhent skírteini til vitnis um að þær hafi lokið námskeiðinu.
  • Séð yfir Garðabæ

Um 20 stúlkur í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ hafa undanfarnar vikur sótt námskeiðið Finndu þinn X-faktor. Stúlkurnar fengu í dag afhent skírteini til vitnis um að þær hafi lokið námskeiðinu.

Í boði Soroptimista

Námskeiðið, sem gengur út að hjálpa stúlkunum að finna sína styrkleika og efla sjálfstraust þeirra, var haldið í boði Soroptimistaklúbbs Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Sams konar námskeið var einnig haldið í Flensborgarskóla og í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Alls sóttu námskeiðin um 60 stúlkur.

Uppgötva eigin styrkleika

Á námskeiðunum var unnið út frá aðferðafræði markþjálfunar þar sem hver og einn þátttakandi fær tækifæri til að uppgötva sína eigin styrkleika og lærir leiðir til að nýta þá. Markmiðið með námskeiðinu er að styrkja stöðu, sjálfstraust og sjálfsmynd stúlkna/kvenna og hjálpa þeim að mynda sína eigin framtíðarsýn og öðlast trú á að þær geti náð henni með virkri markmiðasetningu og stuðningi frá hvor annari.

Mikil ánægja var með þjálfunina bæði meðal stúlknanna og skólayfirvalda og er það von klúbbsins að hún verði þátttakendum hvatning til að setja markið hátt og verða leiðtogar framtíðar, bæði fyrir sig sjálfar sem og samfélagið.

Rúna Magnúsdóttir stjórnendamarkþjálfi sá um námskeiðið en námsráðgjafar í skólunum sáu um að velja þær stúlkur sem bauðst að sækja námskeiðið.

Hvetja konur og stúlkur til að vera virkar

Námskeiðið er sérverkefni Soroptimistaklúbbs Hafnarfjarðar og Garðabæjar og samræmist það alþjóðlegum áherslum samtakanna sem snúa að menntun og leiðtogaþjálfun.

Soroptimistar eru framsækin og sveigjanleg alþjóðasamtök fyrir nútímakonur í stjórnun og öðrum sérhæfðum störfum. Soroptimistar hvetja konur og stúlkur til að vera virkar og stuðla að sköpun tækifæra til að breyta lífi kvenna og stúlkna með fjölþjóðlegu samstarfi og alþjóðlegu félaganeti. Soroptimistar hvetja til jafnræðis og jafnréttis; þeir vinna að því að auka aðgengi að menntun; efla leiðtogahæfni og hagnýta þekkingu til sjálfbærrar framtíðar.

www.soroptimist.is

Á myndinni eru stúlkurnar í FG ásamt Maríu Lóu Friðjónsdóttur, verkefnisstjóra klúbbsins lengst til vinstri, Rúnu Magnúsdóttur sem stendur við hlið Maríu Lóu og Sigurborgu Kristinsdóttur, formanni klúbbsins lengst til hægri.