23. okt. 2012

Barnasáttmálinn kynntur

Námskeið fyrir starfsfólk um innleiðingu á Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, var haldið nýlega
  • Séð yfir Garðabæ

Forstöðumönnum hjá Garðabæ, nefndarmönnum og öðrum starfsmönnum var boðið til námskeiðs um innleiðingu á Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, þann 19. október nk. sl. Markmið innleiðingarinnar er að börn og ungmenni í Garðabæ þekki Barnasáttmálann og hafi skilning á réttindum sínum og að raddir barna og ungmenna heyrist og hafi áhrif. Einnig að starfsfólk sveitarfélagsins þekki Barnasáttmálann og sjái samhengið milli réttindanna og eigin starfsvettvangs og að sáttmálinn liggi til grundvallar við ákvarðanir er varða börn.

Áhugaverður fyrirlestur

Fyrirlesari á námskeiðinu var Hjördís Eva Þórðardóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi og meistaranemi í mannréttindum barna við háskólann í Stokkhólmi. Í fyrirlestrinum var farið yfir framkvæmd verkefnisins en einnig var fjallað um stöðu barna í samfélaginu, byltingarkenndan anda sáttmálans og þá möguleika sem fræðsla og vinna með Barnasáttmálann getur haft í för með sér fyrir börn og fullorðna. Eftir fyrirlesturinn var unnið í hópum með ákvæði sáttmálans og rætt um mikilvægi þeirra í daglegu lífi barna í Garðabæ.

Frá réttindum til raunveruleika

Í innleiðingarferlinu verður lögð áhersla á að Barnasáttmálinn sé lifandi og stefnumótandi skjal sem öll svið stjórnsýslunnar styðjist við. Þá verður sáttmálinn verkfæri fyrir stjórnendur sem tryggir gæði í ákvarðanatöku og aðgerðum er varða börn. Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti á fundi sínum þann 15. mars sl. að innleiða ákvæði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins á markvissan hátt í stjórnsýslu og stofnanir Garðabæjar á árunum 2012-2015. Sérstaklega á það við um ákvæði sem lúta að vernd og umönnun barna ásamt virkri þátttöku þeirra í ákvarðanatöku í málefnum sem þau varða. Garðabær verður fyrsta sveitarfélagið sem innleiðir sáttmálann markvisst með þessum hætti.