23. okt. 2012

Fjárhagsáætlun lögð fram

Frumvarp að fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2013 var lagt fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Garðabær í gær. Sem fyrr sýnir áætlunin sterka fjárhagsstöðu Garðabæjar
  • Séð yfir Garðabæ

Frumvarp að fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2013 var lagt fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Garðabær í gær, 18. október sem er mun fyrr en áður vegna nýrra fjármálareglna sveitarfélaga. Jafnframt var lögð fram 3ja ára áætlun Garðabæjar.

Fjárhagsáætlunin sýnir sem fyrr sterka fjárhagsstöðu Garðabæjar. Gert er ráð fyrir að á árinu 2013 verði rekstrarafgangi í A-hluta að fjárhæð 208 millj.kr. og í samstæðureikningi að fjárhæð 357 millj.kr.

Á meðal forsendna frumvarpsins er að útsvarsprósentan verði óbreytt 13,66% og að álagningarhlutföll fasteignaskatta verði óbreytt sömuleiðis.

Hófleg íbúafjölgun hefur verið síðustu ár sem fylgt hafa auknar skatttekjur. Á sama tíma hafa stofnanir bæjarins getað veitt góða þjónustu og ekki hefur þurft að ráðast í umfangsmiklar kostnaðarsamar fjárfestingar til að mæta íbúafjölguninni. Þó hefur á síðustu árum verið fjárfest í nýjum leikskóla í Akrahverfi, Sjálandsskóla með fjölnota íþróttaaðstöðu auk fimleikahúss, endurnýjun gervigrasvallar og bættri aðstöðu á íþróttavöllum. Þá hefur Garðabær keypti húsnæði þriggja sambýla fyrir fatlað fólk í kjölfar flutnings málefna fatlaðs fólks frá ríkinu til sveitarfélaganna.

Seinni umræða um fjárhagsáætlun fer fram á fundi bæjarstjórnar 6. desember.

Rétt er taka fram að í fjárhagsáætluninni sem nú er lögð fram er ekki tekið tillit til hugsanlegrar sameiningar við Álftanes heldur gerir hvort sveitarfélag sína áætlun eins og lög gera ráð fyrir. Ef til sameiningar kemur verður unnið að því að sameina áætlanir sveitarfélaganna miðað við gildistöku sameiningar.

Fjárhagsáætlun 2013-2016 - fyrri umræða

Greinargerð með fjárhagsáætlun 2013 - fyrri umræða