Matarhönnun í Hönnunarsafninu
Íslensk matarhönnun verður til umræðu í Hönnunarsafni Íslands við
Garðatorg, sunnudaginn 9. september kl. 14.
Harpa
Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafnsins mun þá leiða spjall með hönnuðunum
Brynhildi Pálsdóttur og Auði Ösp Guðmundsdóttur og súkkulaðimeistaranum Hafliða
Ragnarssyni um sýninguna „Sögu til næsta bæjar.“
Í spjalli þeirra verður rætt um matarhönnun og það samstarf sem getur skapast á milli ólíkra starfsgreina eins og gerðist við gerð Súkkulaðifjalla Brynhildar og Hafliða og við vinnuna á Búbótarís sem Auður Ösp vann með fleirum.
Spjallið mun eflaust fá fólk til að fá vatn í munninn, en þau matarverkefni sem hafa verið unnin á síðustu árum að frumkvæði hönnuða hafa þótt forvitnileg og áhugaverð og orðið til þess að fleiri tækifæri hafa opnast á þessum vettvangi.
Matgæðingar hvattir til að mæta og taka þátt í spjallinu.
Hönnunarsafn Íslands er staðsett að Garðatorgi 1 í Garðabæ og er
opið alla daga (nema mánudaga) frá kl. 12-17. Sjá nánari upplýsingar á www.honnunarsafn.is .