Óperusmiðja í Kirkjuhvoli
Óperusmiðja Garðabæjar er nú haldin í fjórða sinn í Garðabæ dagana 21. ágúst - 2. september. Æfingar og tónleikar fyrir almenning fara fram í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju. Óperusmiðjan er námskeið fyrir nemendur í framhaldsnámi og unga atvinnusöngvara. Það er sem fyrr Martha Sharp prófessor við Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg sem heldur námskeiðið ásamt Margaret Singer píanóleikara. Um níu söngvarar taka þátt í námskeiðinu í ár og koma þau víðs vegar að m.a. frá Bandaríkjunum, Belgíu, Þýskalandi og frá Íslandi. Markmiðið er að hjálpa söngvurunum að þróa leikhæfileika sína og sviðstækni jafnframt því að þjálfa líkamann til að viðhalda þeirri stöðu sem nauðsynlegt er að halda á sviðinu á meðan sungið er.
Óperusýningar í Kirkjuhvoli
Afrakstur óperusmiðjunnar verður sýndur almenningi í lok námskeiðsins með einfaldri sviðsmynd, leikmunum og leikbúningum. Sýningar verða föstudaginn 31. ágúst kl. 20 og laugardaginn 1. september kl. 17 í Kirkjuhvoli, safnaðaheimili Vídalínskirkju. Aðgangseyrir er 1000 kr og allir eru velkomnir. Á heimasíðu Garðasóknar má sjá fleiri myndir frá æfingum undanfarinna daga.