Uppskeruhátíð í skólagörðum
Fjölskyldur mættu með börnum sínum til uppskeruhátíðar skólagarðanna í Silfurtúni síðastliðinn sunnudag í góðu veðri, en þá var uppskera sumarsins tekin upp. Boðið var upp á grillaðar pylsur og ávaxtasafa til að fagna góðu starfi.
Í skólagörðunum í sumar ræktuðu börnin kartöflur og fjölmargar káltegundir og salöt, s.s. hvítkál, brokkolí, hnúðkál, grænkál, laufsalat, íssalat, klettasalat, steinselju, rófur, skrautkál og sumarblóm. Ágætis uppskera var eftir sólríkt sumar.
Leiðbeinendur skólagarðanna í sumar voru Edda Guðrún Gísladóttir og Freyja Sif Þórisdóttir. Starfsemi skólagarðanna gekk vel með góðri þátttöku barna í bænum, en alls voru garðarnir 75 talsins.
Uppskera sumarsins tekin upp í skólagörðunum við Silfurtún
Ekki amalegt að fá svona flott spergilkál til að gæða sér á.
Fátt er betra en nýjar kartöflur að hausti.