27. ágú. 2012

Suzukinám

Suzukinám verður í fyrsta sinn í boði í Tónlistarskóla Garðabæjar í vetur. Boðið verður upp á nám á fiðlu, píanó og selló og eru enn laus nokkur pláss bæði á fiðlu og selló.
  • Séð yfir Garðabæ
Suzukinám verður í fyrsta sinn í boði í Tónlistarskóla Garðabæjar í vetur. Boðið verður upp á nám á fiðlu, píanó og selló og eru enn laus nokkur pláss bæði á fiðlu og selló.

Foreldrar séu virkir í námi barnanna


Laufey Ólafsdóttir, nýr skólastjóri Tónlistarskólans segir að Suzukitónlistaruppeldi sé kennt við hugmyndafræði japanska fiðluleikarans Shinichi Suzuki. "Aðferðin byggir á þeirri grunnhugmynd að öll börn geti lært á hljóðfæri, rétt eins og öll börn geta lært móðurmál sitt. Til þess er best að þau byrji snemma og þau þurfa jafnframt að vera í hvetjandi umhverfi. Þessi námsaðferð krefst þess að foreldrar séu virkir í tónlistarnámi barnsins. Þeir sitja með börnunum í öllum tímum og aðstoða börnin við daglegar heimaæfingar."

Laufey segist vona að íbúar í Garðabæ taki vel í þessa nýjung en hún hefur m.a. auglýst Suzukinámið á leikskólum í bænum.

Öflugt starf framundan

 

Starf Tónlistarskólans er fjölbreytt eins og fram kemur í máli Laufeyjar. "Það er óhætt að segja að það verði öflugt starf í tónlistarskólanum í vetur. Við erum með um 420 nemendur og 36 starfsmenn. Auk hefðbundinna hljóðfæratíma verða starfandi við skólann tvær lúðrasveitir, big band og tvær strengjasveitir auk fjölbreytts samspils. Í hverjum mánuði munum við fá utanaðkomandi kennara til að vera með tónsmiðju (masterclass) fyrir nemendur í framhaldsnámi."

Fylgist með á facebook

 

Laufey bendir einnig á að hluti af kennslu tónlistarskólans fer fram í grunnskólum bæjarins. "Við, starfsfólk Tónlistarskólans, hlökkum til að eiga gott samstarf við nemendur og foreldra/forráðamenn í vetur. Til að bæta upplýsingagjöf til foreldra höfum við tekið facebook siðu í notkun og þar verða settar inn upplýsingar um tónfundi, tónleika o.fl. Ég hvet nemendur og forráðamenn til að fylgjast með þar." 
 
 
 
Tónlistarskóli Garðabæjar á facebook 

 
 

Um myndina:

Garðbær hefur sl. ár veitt tveimur nemendum við Tónlistarskólann starfslaun til að æfa sig á hljóðfærin sín yfir sumartímann. Í sumar hlutu starfslaunin þau Tetyana Litvinenko Olegovna og Kjartan Jósefsson Ognibene, sem bæði eru píanónemendur. Þau spiluðu við skólasetningu Tónlistarskólans.