17. ágú. 2012

Fræðsluskilti við Atvinnubótaveginn

Sett hefur verið upp fræðslu- og söguskilti við Atvinnubótaveginn á mörkum Garðahrauns og Vífilsstaðahrauns.
  • Séð yfir Garðabæ

Sett hefur verið upp fræðslu- og söguskilti við Atvinnubótaveginn á mörkum Garðahrauns og Vífilsstaðahrauns.

Ætlunin var að leggja járnbraut

Atvinnubótavegurinn var stórframkvæmd í lok fyrri heimsstyrjaldar en lagning hans var eina vinnan sem mönnum bauðst frostaveturinn mikla árið 1918. Vegurinn lá frá Suðurlandsvegi vestan Elliðaánna, austan við Digranes í Kópavogi, norðan við Hnoðraholt og að Vetrarmýri hjá Vífilsstöðum. Þaðan var hann lagður yfir Garðahraun og átti að enda við Lækjargötu í Hafnarfirði. Ætlunin var að leggja járnbraut eftir veginum endilöngum en þau áform fóru út um þúfur og vegurinn var aldrei tekinn í gagnið.

Áningarstaður við Atvinnubótaveginn

Atvinnubótavegurinn er enn sýnilegur í Garðahrauni. Fyrir nokkrum árum var greiðfær malbikaður göngustígur lagður þvert yfir Garðahraun frá Flatahverfi. Á sl. ári var stígurinn var stígurinn framlengdur til austurs nálægt hraunbrúninni og tengist hann þannig gönguleiðum yfir Reykjanesbraut og opnar gönguleiðir í Kauptún, Urriðaholt og Heiðmörk.
Umhverfisnefnd lagði til að þar sem göngustígurinn þveraði Atvinnubótaveginn yrði hann á timburpalli. Sú hugmynd þróaðist í áningarstað með bekk og fræðsluskilti um sögu Atvinnubótavegarins. Umhverfisnefnd hefur haft umsjón með gerð fræðsluskiltisins sem Árni Tryggvason hannaði, en Ragnheiði Traustadóttir fornleifafræðingur ásamt Ómari Smára Ámannssyni lögðu til textann á skiltið. Geislatækni ehf. í Garðabæ smíðaði skiltastandinn og Garðyrkjudeildin setti upp skiltið, ásamt smíði timburpallsins.

Fræðsluganga auglýst síðar

Fyrirhuguð er fræðsluganga um Berklastíginn suður frá Vífilsstöðum og um göngustíginn yfir Atvinnubótaveginn undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttir. Gangan verður auglýst nánar síðar.


Á myndinni eru Erla Bil Bjarnardóttir garðyrkjustjóri og Árni Tryggvason við skiltið.