29. ágú. 2012

Skátar úr Vífli á landsmóti

Um 70 skátar, 10 ára og eldri, úr Skátafélaginu Vífli tóku þátt í landsmóti skáta á Úlfljótsvatni sem lauk sl. laugardag
  • Séð yfir Garðabæ

Um 70 skátar, 10 ára og eldri, úr Skátafélaginu Vífli tóku þátt í landsmóti skáta á Úlfljótsvatni sem lauk sl. laugardag.

Hafdís Bára Kristmundsdóttir, félagsforingi Vífils segir ánægjulegt að líta yfir vikuna enda hafi allt gengið að óskum.

"Hópurinn var samstilltur og sýndi mikla samstöðu sem m.a. skilaði sér í því að við fengum verðlaun fyrir besta klappliðið og erum við ákaflega stolt af því. Við fengum líka verðlaun fyrir tillitsömustu tjaldbúðina sem lýsir sé í því m.a. hversu fljótir allir voru að koma sér í ró á kvöldin. Skátarnir okkar stóð sig frábærlega, allir sem einn. Það var alveg sama hvaða verkefni voru lögð fyrir, allir voru jákvæðir og leystu þau með sóma. Skátarnir voru virkir og áhugasamir í dagskránni, duglegir við eldhús- og tjaldbúðastörf og góðir félagar."

Haldið upp á 100 ára afmæli skátastarfs

Sérstök afmælisdagskrá var í boði á laugardaginn í tilefni eitt hundrað ára afmælis skátastarfs á Íslandi. Gestir voru þá boðnir velkomnir á mótssvæðið, þátttakendur opnuðu tjaldbúðir sínar og kynntu þar skátastarfið og sína heimabyggð auk þess sem fjölbreytt dagskrá var í boði á vegum mótshaldara. Talið er að á sjötta þúsund gesta hafi verið á mótssvæðinu þegar mest var.

Hamborgaraveisla á svæði Vífils

Skátafélagið Vífill lét ekki sitt eftir liggja á laugardaginn heldur bauð öllum Garðbæingum og öðrum velunnurum félagsins sem leið áttu um svæðið upp á grillaða hamborgara. Fjölmargir þáðu boðið, bæði aðstandendur skátanna og aðrir gestir.

Auk skátanna sem tóku beinan þátt í landsmótinu gisti hópur af foreldrum og fjölskyldum yngri skáta frá Vífli í sérstökum fjölskyldubúðum á svæðinu. Einnig komu margir foreldrar í styttri heimsóknir yfir vikuna og réttu fram hjálparhönd við ýmis verkefni. Það var því stór hópur Garðabæinga sem kom að landsmótinu með einum eða öðrum hætti.

Sjá líka á http://www.facebook.com/Gardabaer.Iceland

Vífilsfáninn við hliðið að svæði Vífils á landsmótinu.

Frá grillveislu Vífils á landsmótinu laugardaginn 28. júlí 2012.