29. ágú. 2012

Snyrtilegt umhverfi 2012

Eigendur fjögurra einbýlishúsalóða og eins tvíbýlishúss og íbúar tveggja fjölbýlishúsa fengu í gær afhentar viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi 2012.
  • Séð yfir Garðabæ

Eigendur fjögurra einbýlishúsalóða og eins tvíbýlishúss og íbúar tveggja fjölbýlishúsa fengu í gær afhentar viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi 2012. Hjálmakur var valin snyrtilegasta gatan í ár og IKEA fékk viðurkenningu fyrir snyrtilega lóð fyrirtækis. Sérstaka umhverfisviðurkenningu fékk Baldvin Þórarinsson, íbúi við Þórsmörk í Garðabæ.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri og Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar afhentu viðurkenningarnar í gær á Garðatorgi.


Einbýlishúsalóðirnar sem fengu viðurkenningu í ár eru:

  • Hraunás 8
  • Laufás 6 (tvíbýlishús)
  • Stekkjarflöt 8
  • Sunnuflöt 10
  • Tjarnarflöt 8

Fjölbýlishúsalóðirnar eru:

  • Arnarás 19
  • Krókamýri 78

Lýsingarnar hér á eftir eru úr umsögn umhverfisnefndar um lóðirnar. Fleiri myndir af lóðunum og frá afhendingu viðurkenninganna eru á facebook síðu Garðabæjar: http://www.facebook.com/Gardabaer.Iceland

Myndir af lóðunum

Lóðir íbúðarhúsnæðis:

Arnarás 19

Fjölbýlishúsið nr. 19 við Arnarás vakti athygli umhverfisnefndar. Lóð hússins er einstaklega snyrtileg með fjölbreyttum gróðri. Falleg aðkoma er frá götunni með lágvöxnum runnum. Mikil alúð er lögð í ásýnd húss og lóðar sem einn íbúinn á mestan heiðurinn af. Þetta er sannkölluð gróðurvin, sem vakti hrifningu nefndarmanna.

Hraunás 8

Lóðin að Hraunási 8 er stílhrein lóð í ungu hverfi. Þar fléttast saman timburpallar, stórgrýti og lávaxinn trjágróður með lítilli grasflöt. Smekkleg framlóð snýr að götu með skjólvegg sem gegnir tveim hlutverkum, með gróðri að framan en innan við vegginn er geymsla og verönd við framhlið hússins. Á baklóð er einnig dvalarsvæði íbúanna sem njóta útsýnis út á Garðahraunið.

Krókamýri 78

Lóð og umhverfi fjölbýlishússins að Krókamýri 78 er sérstaklega snyrtilegt. Aðkoman við bílaplan hússins er umgirt grasi og trjágróðri. Baklóðin sunnan húss er samliggjandi snyrtileg grasflöt með runnagróðri umhverfis. Yfirbragð húss og lóðar er góð fyrirmynd.

Stekkjarflöt 8

Stekkjarflöt 8 dregur athygli að sér strax frá götu, með litríkum steinhæðaplöntum í lóðarkantinum er snýr að götu og ekki síður dregur til sín augað svartyllirinn með hvítum blómskrúða. Á baklóðinni er líka margt að sjá, svo sem fjölbreyttan blómgróður umhverfis stóra snyrtilega grasflöt. Undir trjánum leynast skemmtilegir skúlptúrar. Fallegur garður bæði utan frá séð og innan.

Sunnuflöt 10

Nefndin skoðaði garðinn að Sunnuflöt 10 á síðastliðnu ári. Þá stóðu framkvæmdir yfir sem lofuðu góðu, því endurtók nefndin heimsókn í garðinn í ár. Endurbæturnar hafa tekist mjög vel á þessum gamla garði í Flatahverfi. Hönnun frá Landslagi ehf. er stílhrein og opnar dvalarsvæðið á baklóð að lækjarsvæðinu og hrauninu. Mjög snyrtilegt.

Tjarnarflöt 8

Það skortir lýsingarorð til að lýsa hughrifum nefndarmanna við að ganga um garð hjónanna að Tjarnarflöt 8. Garðurinn fékk viðurkenningu árið 2000 og ekki hefur hann dalað, heldur hefur þvert á móti bæst við blómasafnið. Í garðinum er gríðarlegt blómahaf sem raðað er upp eftir litasamsetningum, líkt og gerist í fínni skrúðgörðum. Eftir að hafa skoðað japanska garðinn á framlóð eru gestir leiddir eftir þröngum stiklum og stígum að hverjum garðhluta sem hver hefur sitt sérkenni. Í garðinum er m.a. hvítblómstrandi svæði, dvalarstaðir með borðum og stólum, gróðurhús, ræktunarreitir, skúlptúr eftir bóndann og fleira.

Umhverfisviðurkenning 2012

Baldvin Þórarinsson

Umhverfisviðurkenningu 2012 hlýtur Baldvin Þórarinsson í Þórsmörk fyrir sérstaka snyrtimennsku og alúð við nærumhverfi sitt í götunni sinni og næsta nágrenni.

Viðurkenning fyrir lóð fyrirtækis

IKEA Kauptúni 4

Eigendur fyrirtækisins IKEA í Kauptúni eiga hrós skilið fyrir snyrtilega lóð og umhverfi. IKEA ræður til sín sumarfólk sem vinnur að snyrtingu lóðarinnar með grasslætti, umhirðu gróðurbeða og grjóthreinsun á grassvæðum í Kauptúni. IKEA sýnir sérstaklega gott fordæmi með því að halda lóð fyrirtækisins snyrtilegri.

Snyrtilegasta gatan 2012

Hjálmakur

Fyrir snyrtilegustu götuna í Garðabæ 2012, hljóta íbúar í Hjálmakri viðurkenningu með skilti sem sett verður upp í götunni. Götumyndin við Hjálmakur er sérstaklega snyrtileg með frágengnum lóðum í nýju hverfi sem er til eftirbreytni. Íbúar Hjálmakurs hafa verið þátttakendur í vorhreinsum í nærumhverfinu sem er verkefni er umhverfisnefnd stendur fyrir á vorin.