19. ágú. 2016

Afmælishátíð Garðabæjar - 3. sept - takið daginn frá!

Í tilefni af 40 ára afmæli Garðabæjar á þessu ári verður haldin afmælishátíð í miðbæ Garðabæjar á Garðatorgi laugardaginn 3. september nk. Á torginu verður skemmti- og tónlistardagskrá frá kl. 13.30 til 18
  • Séð yfir Garðabæ

Í tilefni af 40 ára afmæli Garðabæjar á þessu ári verður haldin afmælishátíð í miðbæ Garðabæjar á Garðatorgi laugardaginn 3. september nk.  Á torginu verður skemmti- og tónlistardagskrá frá kl. 13.30 til 18 þar sem fram koma m.a. Ragnheiður Gröndal, Ævar vísindamaður, Í svörtum fötum, Dikta, Hórmónar, Úlfur Úlfur og Páll Óskar.  Fyrirtæki á torginu taka einnig mörg hver þátt í hátíðinni og verða með ýmis góð tilboð og fleira skemmtilegt í tilefni dagsins.  

Dagskráin í heild birtist á vef Garðabæjar fljótlega hér í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar og verður auk þess kynnt á fésbókarsíðu Garðabæjar. 

Garðbæingar eru hvattir til að gera sér glaðan dag saman og skemmta sér í sameiningu á Garðatorgi um daginn og tilvalið er að vera með götugrill um kvöldið að lokinni skemmtun.  

Fáðu trúbador í götugrillið að lokinni afmælishátíð!

Í tilefni af afmælishátíðinni geta nágrannar, stórfjölskyldur og vinahópar sem ætla að sameinast um götugrill um kvöldið sótt um að fá trúbador í heimsókn í grillið.  Nokkrir trúbadorar verða til taks og fara á milli staða og skemmta.  Fulltrúi götugrillsins og/eða götustjórar geta haft samband við bæjarskrifstofu Garðabæjar í  netfangi gardabaer@gardabaer.is til að óska eftir trúbador í heimsókn í grillið.  Reynt verður að verða við óskum flestra en ef margar götur óska eftir heimsókn verður dregið á milli þeirra sem senda inn ósk um trúbadoraheimsókn.