30. maí 2012

Fimm ára bekkur í Flataskóla

Fimm ára börnum býðst að hefja nám í Flataskóla frá og með næsta hausti en þá verður stofnuð sérstök forskóladeild við skólann.
  • Séð yfir Garðabæ

Fimm ára börnum býðst að hefja nám í Flataskóla frá og með næsta hausti en þá verður stofnuð sérstök forskóladeild við skólann.

Nám í gegnum leik

Ólöf Sigurðardóttir, skólastjóri Flataskóla segir að í 5 ára bekknum verði lögð áhersla á nám í gegnum leik. Á þann hátt verði tekist á við lestrarnám, stærðfærði, náttúrufræði, list- og verkgreinar og félagslega hæfni.

"Við ætlum jafnframt að leggja áherslu á markvisst útinám og hreyfingu en í og við Flataskóla er góð aðstaða til kennslu list- og verkgreina og íþrótta. Fimm ára hópurinn verður í suðurálmu Flataskóla sem er sérstaklega hönnuð með þarfir yngri barna í huga. Þar fer einnig fram starf með nemendum í 1. bekk og við gerum ráð fyrri nánu samstarfi og flæði á milli þessara tveggja hópa," segir Ólöf.

Sama gjald og í leikskólum

Kennarar 5 ára bekkjarins verða bæði leik- og grunnskólakennarar. Boðið verður upp á sveigjanlegan vistunartíma í skólanum, eins og í leikskólum en lágmarkstími er þó kl. 8.30-14. Gjald er það sama og fyrir leikskóladvöl á leikskólum bæjarins.

Auka fjölbreytni í skólavali

Margrét Björk Svavarsdóttir, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs segir að með fimm ára bekknum sé tekið fyrsta skrefið að samreknum leik- og grunnskóla. "Við ætlum í framhaldinu að skoða þann möguleika að setja á leikskóla í Flataskóla fyrir börn frá 18 mánaða aldri. Við erum með gott húsnæði í Flataskóla sem hentar vel yngstu börnunum og því var ákveðið að skoða þennan valkost þar."

Tilgangurinn er ekki síst að auka fjölbreytni í skólavali fyrir börnin að sögn Margrétar. "Með tilkomu 5 ára deildar er enn verið að auka fjölbreytni á námsúrræðum fyrir börnin. Foreldrar geta valið um það hvort barnið þeirra verði áfram í leikskóla eða fari í grunnskóla. Mörg börn eru tilbúin til þess að hefja nám í grunnskóla og það er verið að koma til móts við þeirra þarfir."

Kynningarfundur í Flataskóla

Starfið í fimm ára bekk í Flataskóla verður kynnt fyrir áhugasömum foreldrum og forráðamönnum mánudaginn 4. júní klukkan 18:00 í Flataskóla.

Einnig er hægt að hafa sambandi við skólastjóra í síma 5658560 og 6171570 eða á netfangið olofs@flataskoli.is til að fá allar helstu upplýsingar.