18. maí 2012

Spilagleði á jazzhátíð

Jazzhátíð Garðabæjar hófst með skemmtilegum tónleikum Stórsveitar Samúels J. Samúelssonar í hátíðarsal FG fimmtudagskvöldið 17. maí sl. Um 200 manns mættu í FG til að hlusta á 17 frábæra tónlistarmenn sem léku fönkblandaðan jazz af miklum krafti fyrir áhorfendur. Í dag föstudag, verður boðið upp á jazz víðs vegar um Garðabæ. Hljómsveitin Reykjavík Swing Syndicate með Hauk Gröndal í fararbroddi heldur tónleika í Jónshúsi
  • Séð yfir Garðabæ

Jazzhátíð Garðabæjar hófst með skemmtilegum tónleikum Stórsveitar Samúels J. Samúelssonar í hátíðarsal FG fimmtudagskvöldið 17. maí sl.  Um 200 manns mættu í FG til að hlusta á 17 frábæra tónlistarmenn sem léku fönkblandaðan jazz af miklum krafti fyrir áhorfendur.  Í dag föstudag, verður boðið upp á jazz víðs vegar um Garðabæ.  Hljómsveitin Reykjavík Swing Syndicate með Hauk Gröndal í fararbroddi heldur tónleika í Jónshúsi við Strikið 6 kl. 14 fyrir eldri borgara.  Einnig verður swingað fyrir gesti og gangandi við Íslandsbanka á Garðatorgi kl. 15.30 og við verslunarkjarnann í Litlatúni kl. 17 í dag.

Ungmennatónleikar

Í kvöld, föstudag 18. maí kl. 20:30 verða ungmennatónleikar hátíðarinnar í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli. Þar koma fram Stórsveit  og Smásveit Tónlistarskóla Garðabæjar undir stjórn þeirra Braga Vilhjálmssonar og handleiðslu Ómars Guðjónssonar.  Einnig stígur á stokk hljómsveitin Ídúrogmoll sem er skipuðum ungum og efnilegum tónlistarmönnum, þeim Örnu Margréti Jónsdóttur, Eyrúnu Engilbertsdóttur, Aroni Erni Óskarssyni, Hjörvari Hans Bragasyni og Helga Kristjánssyni.

Hljómsveitin ADHD

 Hátíðinni lýkur á laugardagskvöldinu  19. maí með tónleikum hljómsveitarinnar ADHD í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli.  Fremst í fararbroddi eru bræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir sem leika á gítar og saxófón.  Ómar Guðjónsson var í fyrra útnefndur bæjarlistamaður Garðabæjar.  Með þeim bræðrum leika Davíð Þór Jónsson á Hammond orgel og Magnús Tryggvason Elíassen á trommur.  Hin vinsæla og marglofaða hljómsveit ADHD galdrar fram einstaka stemmningu á mörkum popp- og jazztónlistar. 

 

Ókeypis aðgangur

Aðgangur er ókeypis á alla tónleika jazzhátíðarinnar og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.  Dagskráin er aðgengileg hér.   Hátíðin er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar og listrænn stjórnandi frá upphafi er Sigurður Flosason tónlistarmaður og fyrrum bæjarlistamaður Garðabæjar.  Aðalstyrktaraðili hátíðarinnar er Íslandsbanki  í Garðabæ.  Jazzhátíðin hefur ávallt leitast við að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá við allra hæfi með bestu jazztónlistarmönnum landsins sem margir hverjir eiga rætur sínar að rekja til Garðabæjar.