18. ágú. 2016

Lærdómsrík vika í tómstundaheimili

Öllum börnum sem hefja nám í sex ára bekk í haust var boðið að koma viku fyrr í tómstundaheimilið og dvelja þar allan daginn í sex daga áður en skólastarfið sjálft hefst.
  • Séð yfir Garðabæ

Öllum börnum sem hefja nám í sex ára bekk í haust var boðið að koma viku fyrr í tómstundaheimilið og dvelja þar allan daginn í sex daga áður en skólastarfið sjálft hefst. Frumkvæðið að þessari nýjung kom frá Valgerði Ósk Ásbjörnsdóttur, eða Völu eins og hún kallar sig, sem er forstöðumaður Regnbogans, tómstundaheimilis Hofsstaðaskóla. Vala segir að markmiðið sé að gefa börnunum tækifæri til að kynnast skólahúsnæðinu og umhverfi þess ásamt starfinu í tómstundaheimilinu í rólegheitum áður en eldri börnin mæta.

Gott fyrir börn og foreldra

„Það er mjög gott fyrir börnin að vera í svona litlum hópi jafnaldra til að byrja með á meðan þau eru að venjast þessu nýja umhverfi. Það dregur verulega úr kvíðanum fyrir því að byrja í skóla. Þessa vikuna eru 66 börn hjá okkur en þegar skólastarfið hefst verða 200 börn á tómstundaheimilinu svo það er mikill munur.“ Í heild verður 81 barn úr fyrsta bekk í Regnboganum í vetur þannig að langflestir foreldrar hafa nýtt sér þetta boð. „Sum börn eru í fríi og komust þess vegna ekki og nokkur börn hafa litið við í einn dag eða dagspart, sum í fylgd eldri systkina,“ segir Vala. Hún bætir við að þessi kynningarvika sé ekki síður góð fyrir foreldrana sem „fá tækifæri til að kynnast okkur starfsfólkinu og sjá húsnæðið sem börnin þeirra verða í eftir skóla í vetur.“

Fá að hitta kennarann sinn

Það sem af er vikunnar hafa börnin m.a. farið í skoðunarferð um skólahúsnæðið þar sem þau hittu skólastjóra og aðra stjórnendur skólans. Þau hafa líka heimsótt bókasafn skólans og fengið fræðslu um þjónustu þess. Til stendur að fara í íþróttahúsið þar sem þau hitta íþróttakennarann og fá að skoða búningsklefana og aðra aðstöðu þar. Á föstudaginn rennur svo upp hin langþráða stund þegar þau fá að fara í skólastofurnar sínar og hitta kennarann sem verður með þeim í vetur. „Við höfum líka farið yfir ýmis hversdagsleg atriði með þeim sem er nauðsynlegt að kunna, t.d. að rata um skólahúsnæðið, hvar þau geyma fötin sín, hvernig þau eiga að ganga frá eftir sig og rætt um samskipti og margt fleira,“ segir Vala.

Orðin eins og heima hjá sér

Hún segir þá daga sem liðnir eru hafa gengið ljómandi vel. „Börnin eru strax orðin eins og heima hjá sér og eru farin að minna hvert annað á að taka til, ganga frá fötunum sínum og fleira. Þau eru ótrúlega brött og mjög sjálfstæð sem sýnir sig í því að þau vilja fá að gera allt sjálf. Þeim finnst gaman að fá að velja sér snaga í stað þess að eiga sér hólf eins og á leikskólanum og eru mjög dugleg að velja það sem þau vilja gera þegar við erum með val,“ segir Vala að lokum.