12. ágú. 2016

Menntabúðir í tölvu- og upplýsingatækni

Grunnskólakennarar í Garðabæ sóttu fjölbreyttar vinnustofur í menntabúðum í tölvu- og upplýsingatækni sem haldnar voru fimmtudaginn 11. ágúst í Garðaskóla.
  • Séð yfir Garðabæ
Menntabúðir í tölvu- og upplýsingatækni fyrir kennara og þroskaþjálfa í grunnskólum í Garðabæ voru haldnar fimmtudaginn 11. ágúst. Í búðunum var kynntur ýmis hugbúnaður sem hægt er að nýta í skólastarfi og einnig rætt um hvernig hægt er að nýta snjalltæki til að auðga kennsluna. Dagurinn hófst á fyrirlestri Sigurðar Hauks Gíslasonar en hann flutti erindið „Starfræn borgaravitund. Bara í fræðibókum eða líka í daglegu lífi?“ Deildarstjóri tölvudeildar, Vala Dröfn Hauksdóttir kynnti starfsfólk og starfsemi tölvudeildarinnar og greindi frá þeim verkefnum sem framundan eru og boðið var upp á vinnustofur í þremur lotum, alls 30 talsins,sem kennarar gátu valið úr.

Meðan á menntabúðunum stóð og eftir að þeim lauk gafst þátttakendum tækifæri til að ræða við fulltrúa fyrirtækja sem voru með kynningarbás á staðnum til að kynna afurðir sínar. Þessir aðilar voru: Locatify, eTwinning-rafrænt skólasamstarf, Samsung og Menntamálastofnun sem lagði til dreifildi. Einnig var til sýnis „upplýsingatæknidót“ úr eigu skólanna.

Dagurinn var haldinn í boði Garðabæjar en kennsluráðgjafar í tölvu- og upplýsingatækni í grunnskólum bæjarins höfðu veg og vanda af skipulagningu hans. Þeir voru mjög ánægðir með þátttökuna og hversu áhugasamir kennarar voru.  „Allmargir kennarar úr grunnskólum bæjarins miðluðu eigin þekkingu og reynslu til samstarfsmanna sinna og stóðu þeir sig með eindæmum vel. Einnig var fengur að fá í lið með okkur gestakennarana Örn Arnarson frá Heiðarskóla úr Leirársveit og kennsluráðgjafa frá Kópavogi þau Eyþór Bjarka Sigurbjörnsson, Kristínu Björk Gunnarsdóttur og Sigurð Hauk Gíslason," segja kennsluráðgjafarnir. 

Kennsluráðgjafar grunnskóla Garðabæjar í upplýsingatækni eru:
Elísabet K. Benónýsdóttir Hofsstaðaskóla
Eygló Sigurðardóttir Sjálandsskóla
Hildur Rudolfsdottir Garðaskóla
Ingibjörg Jónsdóttir Álftanesskóla 
Kolbrún Svala Hjaltadóttir Flataskóla